Innlent

Sprengjan í Borgarnesi gerð óvirk með sprengjuhleðslu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Hér má sjá sprengjukúluna sem fannst í gær.
Hér má sjá sprengjukúluna sem fannst í gær. Vísir/LGH/GVA
Staðfest hefur verið að sprengjan sem fannst nærri tjaldstæðinu í Borgarnesi í gær er bresk sprengjukúla frá síðari heimsstyrjöldinni. Sprengjukúlan fannst í gærkvöldi þegar björgunarsveitarmenn voru að stilla upp fyrir flugeldasýningu sem batt endahnútinn á Unglingalandsmótinu sem haldið var í Borgarnesi um helgina.

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru kallaðir á staðinn þegar lögreglu barst tilkynning um málið í dag. Þeir gengu úr skugga um að enginn væri nærri svæðinu og gerðu kúluna því næst óvirka. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni var það gert með sprengjuhleðslu með það að markmiði að leysa ekki úr læðingi fulla virkni kúlunnar.

Sjá einnig: Fundu sprengju við tjaldstæðið í Borgarnesi

Sprengjukúlan var af gerðinni Mortar og er tveggja tommu hásprengja. Samkvæmt Landhelgisgæslunni voru þessar gerðir vopna algengar á árum seinni heimstyrjaldarinnar en þær hafa fundist víða um land.

Aðgerðin gekk vel að sögn upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×