Innlent

Sprengjumaðurinn sleppur við ákæru

Mikill viðbúnaður Vélmenni var stýrt á vettvang og sérsveitarmaður í hlífðargalla fylgdi í kjölfarið.Fréttablaðið/stefán
Mikill viðbúnaður Vélmenni var stýrt á vettvang og sérsveitarmaður í hlífðargalla fylgdi í kjölfarið.Fréttablaðið/stefán
Ríkissaksóknari hefur fellt niður mál Snævars Valentínusar Vagnssonar, 72 ára manns sem kom fyrir lítilli sprengju á Hverfisgötu í janúar síðastliðnum. Ákvörðunin var tekin 12. september.

„Við töldum okkur ekki geta heimfært þetta undir nein refsiákvæði," segir Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.

„Það var ekki hægt að sýna fram á ásetning til að valda tjóni. Það er staðreynd að þessi svokallaða sprengja sprakk við hliðina á honum en það sást hvorki á honum né veggnum. Þetta var gas í brúsa sem var af hans hálfu aðallega ætlað til að vekja athygli á skeyti sem hann kom fyrir í hólki sem fylgdi. Það hefði verið svipað ef einhver hefði kveikt í skoteldi þarna – og í raun hefði það verið hættulegra."

Málið hófst þegar tilkynnt var um torkennilegan hlut á gangstéttinni fyrir utan skrifstofur Ríkissaksóknara og fleiri stofnana snemma morguns 31. janúar.

Viðbúnaður lögreglu vegna málsins var gríðarlegur. Neðsti hluti Hverfisgötunnar var girtur af klukkustundum saman og tugir lögreglumanna, meðal annars frá sérsveitinni, kallaðir út ásamt sprengjusveit Landhelgisgæslunnar.

Fjarstýrt sprengjuleitarvélmenni var sent að hlutnum og látið skjóta lítilli sprengihleðslu í hann. Í kjölfarið fór lögreglumaður íklæddur miklum hlífðarbúningi að sprengjustaðnum til að gaumgæfa hvort allt væri í lagi.

„Viðbrögð lögreglu voru auðvitað eðlileg því að það vissi enginn hvað þetta var," segir Helgi Magnús.

Næstu daga var lýst eftir feitlögnum, lágvöxnum manni sem sást á upptökum úr öryggismyndavélum forða sér af vettvangi og stökkva upp í lítinn sendiferðabíl. Tíu dögum eftir sprenginguna var Snævar Valentínus handtekinn. Hann viðurkenndi síðar, í viðtali við DV, að hafa upphaflega ætlað með sprengjuna heim til Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.

Spurður hvort ekki sé refsivert að vekja ótta meðal almennings segist Helgi Magnús ekki álíta að svo sé – að minnsta kosti ekki í þessu tilfelli. „Hins vegar má auðvitað velta fyrir sér hvort það væri æskilegt að löggjafinn tæki á því þegar svona atvik kosta mikinn viðbúnað."

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×