Viðskipti innlent

Spurning hvort Íslandsbanki eignist skaðabótakröfu á ríkið

BBI skrifar
Húsnæði Hæstaréttar
Húsnæði Hæstaréttar
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu á fimmtudaginn var að ákveðin tegund lána sem miðuð eru við erlenda gjaldmiðla sé lögmæt. Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, telur fordæmisgildi dómsins aðeins taka til lána frá Íslandsbanka.

„Hann breytir ekki þeim niðurstöðum sem áður voru komnar hjá hinum því hann er allt öðru vísi orðaður," segir Friðbert. Dómurinn felur því ekki í sér stefnubreytingu Hæstaréttar varðandi gengistryggðu lánin.

Sú spurning sem dómurinn vekur er aftur á móti hvort Íslandsbanki eignist skaðabótakröfu á ríkissjóð. Í lok árs 2010 kom Árni Páll Árnason, þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, lögum um leiðréttingu gengistryggðra lána í gegnum Alþingi. Lögin miðuðu við þá forsendu að öll lán sem greiddust út í íslenskum krónum en tóku mið af erlendum gjaldmiðlum væru ólögmæt. Samkvæmt lögunum voru öll fjármálafyrirtæki skuldbundin til að endurreikna lán sín miðað við það.

Nú hefur komið á daginn að einhver þessara lána eru lögmæt. Friðbert telur að Íslandsbanki muni koma eins til móts við sína skuldara og aðrir bankar, þ.e. miða við lögin og endurreikna lánin líkt og þau væru ólögmæt.

„Þess vegna vaknar sú spurning hvort Árni Páll hafi gert ríkið skaðabótaskylt með því að skylda fjármálafyrirtæki til að endurreikna lán eins og þau væru ólögmæt en þegar upp er staðið reynast þau lögmæt ," segir Friðbert. „Þetta veldur lækkun hjá Íslandsbanka um einhverja milljarða. Sumir hafa sagt 20 milljarða."


Tengdar fréttir

Lánið var í erlendum myntum

Húsnæðislán Íslandsbanka í erlendri mynt eru ekki ólögmæt gengistryggð lán. Hæstiréttur staðfesti í gær niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands þar að lútandi í máli hjóna sem tekið höfðu slíkt lán hjá bankanum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×