Innlent

Sruli sýknaður af því að flytja inn hnúajárn

Valur Grettisson skrifar
Sruli Recht ásamt lögmanni sínum Vilhjálmi Hans Vilhjálmssyni.
Sruli Recht ásamt lögmanni sínum Vilhjálmi Hans Vilhjálmssyni.

„Ég var sýknaður og fæ regnhlífarnar til baka," segir hönnuðurinn Sruli Recht, en hann var ákærður fyrir að flytja inn fjögur hnúajárn. Dómarinn sýknaði hann í morgun á þeim forsendum að hnúajárnin væru ekki vopn þegar þau væru fest við regnhlíf sem Sruli kallar Umbuster-regnhlíf.

Sjálfur fékk Sruli, sem er frá Ástralíu, leyfi fyrir hnúajárni þegar hann leysti þau úr tollinum. Í ljós kom þó að hann var ekki með leyfi fyrir hinum þremur járnunum.

Í dóminum segir að Dómari hafi skoðað og handleikið regnhlífina. Þar kemst hann að þeirri niðurstöðu að hnúajárnið hafi mun léttari grip en venjulegt hnúajárn. Hann kemst því að þeirri niðurstöðu að ekki verði séð að meiri hætta stafi af svonefndri Umbuster regnhlíf með handfangi, en af regnhlífum almennt.

Stórhættuleg regnhlíf? Það fannst dómara í það minnsta ekki.

Sruli segist ánægður með sigurinn enda sýknaður með öllu og hann fær að auki regnhlífarnar til baka. Hann er sérstaklega sáttur við það enda ætlar hann að selja þær.

Aðspurður hvað honum finnist um málið svarar hann: „Mér er létt og það er gott að dómarinn var sammála mér um að þetta væru ekki vopn."


Tengdar fréttir

Hönnuður sakaður um vopnaburð

Aðalmeðferð í máli Ríkislögreglustjóra gegn ástralska hönnuðinum Sruli Recht fór fram í sal 202 í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Sruli er gefið að sök að hafa haft undir höndum vopn sem hann hafi ekki haft leyfi fyrir en um er að ræða regnhlífar með hnúajárni fyrir handfang. Leikhús fáranleikans, segir lögmaður Sruli, Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×