Innlent

Stærðarinnar togaraskrúfur komu í ljós við gamla hafnargarðinn

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Stærðarinnar togaraskrúfur frá fjórða áratug síðustu aldar og gamli hafnargarðurinn komu í ljós í uppgreftri á reitnum við hlið Borgarbókasafnsins í Tryggvagötu þar sem hafnarstæði Reykjavíkurhafnar var áður. Safnstjóri Borgarsögusafns Reykjavíkur telur líklegt að skrúfurnar endi á Sjóminjasafninu.

Á reitnum við borgarbókasafnið í Tryggvagötu standa yfir framkvæmdir vegna nýs fjölbýlishúss sem þar á að rísa. Við uppgröft á reitnum kom í ljós gamli hafnargarðurinn sem var byggður á árunum 1913-1917 og þessar stærðarinnar togaraskrúfur (sjá myndskeið) sem talið er að séu frá fjórða áratug síðustu aldar.

Sagan er hér allt undir okkur. Við erum staddir í miðjum hafnargarðinum eins og hann var fyrir 1913? „Við erum í fjöruborðinu og það er hárrétt sem þú segir að allar framkvæmdir í Reykjavík munu þurfa að hafa varann á því að sagan er hér alls staðar og það er mjög gott að það hefur orðið hugarfarsbreyting. Menn eru að hugsa um þetta, gefa þessu gaum og bera virðingu fyrir þessu,“ segir Guðbrandur Benediktsson sagnfræðingur og safnstjóri Borgarsögusafns Reykjavíkur.

Skrúfurnar sjálfar eru engin smásmíði. Guðbrandur segir greina koma að þær endi á Sjóminjasafninu Víkinni sem er eitt þeirra safna sem heyra undir Borgarsögusafn Reykjavíkurborgar.

Mun gamli hafnargarðurinn bara hverfa fyrir þessari nýbyggingu? „Já, væntanlega. Hafnargarðurinn var byggður á árunum 1913-1917 og er geysilega mikið mannvirki en þetta var Reykjavíkurhöfn á þeim tíma. Það voru fluttar inn lestir til að flytja efnið úr Öskjuhlíðinni og þetta hafði auðvitað mikla þýðingu fyrir Reykjavík. Þessi garður er alveg frá Grandagarði og að Ingólfsgarði og er að koma í ljós í framkvæmdunum bæði hér og fyrir austan Tollhúsið,“ segir Guðbrandur.

Virkt fornleifaeftirlit er með framkvæmdunum og verktökum er skylt að upplýsa um muni sem finnast og eru þeir allir færðir til bókar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×