Innlent

Stærsta innköllun frá upphafi - 60 þúsund flöskur með bláberjabragði

Boði Logason skrifar
Hátt í sextíu þúsund Pepsi Max flöskur í hálfs lítra flöskum verða innkallaðar. Það er stærsta innköllun Ölgerðarinnar frá upphafi.
Hátt í sextíu þúsund Pepsi Max flöskur í hálfs lítra flöskum verða innkallaðar. Það er stærsta innköllun Ölgerðarinnar frá upphafi. Mynd/Samsett-Vísir.is
"Þetta kemur stundum fyrir, en þetta er það stærsta sem við höfum lent í frá upphafi," segir Friðjón Hólmbertsson framkvæmdastjóri sölusviðs Egils hjá Ölgerðinni, en fyrirtækið hefur kallað inn allt Pepsi Max í hálfs lítra flöskum framleitt 25. maí síðastliðinn. Ástæðan er sú að komið hefur í ljós að bláberjabragðefni blandaðist fyrir mistök í drykkinn.

„Líklegasta skýringin á þessu er að áður en tappað var á Pepsi Max, var verið að tappa á Bláberja Kristal Plús. Það hefur orðið eitthvað eftir í blöndunarpottinum, og svo kemur Pepsi Max út í það og þá kemur smá bláberjabragð," segir Friðjón. „Þetta er ekkert skaðlegt - þetta er bara ekki rétta Pepsi Max-ið sem fólk þekkir."

„Þetta eru hátt í sextíu þúsund flöskur, fimmtíu bretti. Þetta er innköllun á öllu landinu, þetta er stórt verkefni," segir hann en starfsmenn Ölgerðarinnar um allt land vinna nú að því að taka flöskurnar úr búðum. „Við þurfum að farga þessu öllu, málið er að þótt þetta sé ekkert vont, þá er þetta ekki rétta varan."

Ölgerðin hefur beðið sölustaði á landsbyggðinni að setja Pepsi Max með best fyrir dagsetningunni, 25.10.11, til hliðar þar til hún verður sótt eftir helgina. „Ölgerðin leggur áherslu á 100% gæði og stöðugleika og innkallar því þessa vöru með hraði. Við biðjum viðskiptavini okkar innilegrar afsökunar á þessum mistökum og óþægindum," segir í tilkynningu frá Ölgerðinni.

Þeir viðskiptavinir sem hafa keypt flösku með þessari dagsetningu geta farið í Ölgerðina og fengið venjulegt Pepsi Max í staðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×