Innlent

Starfsmenn eiga ekki möguleika á að hlera

Sævar Freyr Þráinsson Tekur undir orð þeirra sem vilja auka eftirlit með hlerunum og tengiliðum lögreglu innan símfyrirtækjanna.
Sævar Freyr Þráinsson Tekur undir orð þeirra sem vilja auka eftirlit með hlerunum og tengiliðum lögreglu innan símfyrirtækjanna.
„Aðalatriðið í málinu er að það er enginn möguleiki fyrir starfsmenn Símans að hlera. Það er bara ekki hægt,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, spurður um viðbrögð fyrirtækisins við kvörtun þess efnis að tiltekinn starfsmaður þess hafi hlerað síma fyrrverandi maka síns í heimildarleysi.

Póst- og fjarskiptastofnun hefur nú með höndum rannsókn á slíku máli og hvort viðbrögð Símans hafi verið fullnægjandi, eins og Fréttablaðið greindi frá í gær.

Sævar Freyr segir erfitt að ræða þetta einstaka mál. Þó segir hann aðspurður að í ljósi þess að ekki sé til hlerunarbúnaður hjá Símanum og því ógerlegt fyrir starfsfólk að hlera símtöl hafi málið ekki verið kært til lögreglu né viðkomandi starfsmaður látinn hætta.

„Hlerunarbúnaðurinn er hjá lögreglu og þegar hleranir fara fram þarf aðstoð starfsmanna Símans til að tengja lögreglu við númerið sem þarf að hlera. Það er það eina sem starfsmenn geta gert hér,“ segir Sævar.

„Ég tek undir það sem Ásgeir Karlsson, yfirmaður greiningardeildar ríkislögreglustjóra, og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sögðu í Fréttablaðinu í gær að auka þarf eftirlit með hlerunum og tengiliðum lögreglu innan fjarskiptafyrirtækjanna. Slíkt myndi auðvelda fyrirtækjunum aðkomu að þessum viðkvæmu málum, sem mikilvægt er að unnin séu af öryggi af þeim starfsmönnum sem sinna þessu verkefni.“- jss



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×