Innlent

Stjórnarskrárbreytingar senn fullræddar

Ingvar Haraldsson skrifar
Páll Þórhallsson segir að öllum steinum hafi verið velt við í nefndinni og það þjóni litlum tilgangi að ræða málin frekar þar.
Páll Þórhallsson segir að öllum steinum hafi verið velt við í nefndinni og það þjóni litlum tilgangi að ræða málin frekar þar. vísir/anton brink
„Nú er stefnt að því að ná fram niðurstöðu áður en þingið kemur saman á ný hvort sem að niðurstaðan er þá sameiginleg eða ekki sé flötur fyrir samkomulagi,“ segir Páll Þórhallsson, formaður stjórnarskrárnefndar.

Upphaflega var stefnt að því að leggja málið fram á haustþingi svo Alþingi gæti afgreitt málið og hægt væri að kjósa um frumvarpið samhliða forsetakosningum næsta sumar. Það gekk ekki eftir og því hyggst nefndin nú skila frá sér tillögum um miðjan janúar, áður en Alþingi kemur saman á ný, hvort sem nefndin nái saman eða ekki.

„Ástæðan er sú að það þjónar ekki miklum tilgangi að ræða þessi efni mikið lengur í þessum hópi, það er búið að velta við öllum steinum,“ segir Páll.

Nefndin var skipuð í nóvember árið 2013 og hefur fundað hátt í fjörutíu sinnum síðan þá.

Nefndinni var falið að kanna fýsileika stjórnarskrárbreytingu er snúa að framsali ríkisvalds vegna alþjóðasamstarfs, þjóðareign náttúruauðlinda, umhverfismálum og þjóðaratkvæðagreiðslum að kröfu kjósenda.

Páll segir nefndarmenn nærri niðurstöðu í öllum þessum málum en það muni ekki skýrast fyrr en í janúar hvort niðurstaða náist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×