Innlent

Stjórnarslit ekki í kortunum

Erla Hlynsdóttir skrifar
Ríkisstjórnarsamstarfið er ekki í hættu, þrátt fyrir að þrír ráðherrar Vinstri grænna hafi lýst yfir að endurskoða þurfi umsókn að Evrópusambandinu. Þetta er mat fjölmargra stjórnarþingmanna sem fréttastofa ræddi við í dag.

Utanríkismálanefnd Alþingis fundaði um stöðu aðildarviðræðnanna í dag en þar var um hefðbundinn stöðufund að ræða og engar stórar ákvarðanir teknar.

Undanfarið hefur orðið vart við vaxandi kröfu innan Vinstri grænna um að endurskoða þurfi aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þessu hefur Ögmundur Jónasson haldið fram og nýverið tóku ráðherrarnir Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir í sama streng.

Eitt heitasta baráttumál Samfylkingarinnar á kjörtímabilinu hefur hins vegar að halda viðræðunum áfram og því mætti ætla að þessi skoðun ráðherra Vinstri grænna setti strik í reikninginn.

Hins vegar þykir heimildarmönnum fréttastofu ljóst að Vinstri grænir geta ekki með nokkru móti farið í kosningar eins og staðan er nú. Þeir sem sitja á þingi fyrir flokkinn sögðu fyrir síðustu kosningar að ekki yrði gengið í Evrópusambandið á þeirra vakt.

Þingmenn beggja flokka sem fréttastofa hefur rætt við í dag segja að það komi því ekki á óvart að einstakir þingmenn Vinstri grænna stígi nú fram þegar vetur er til kosninga, minni á upphaflega andstöðu sína við Evrópusambandið. Enginn vilji sé til að slíta samstarfinu heldur vilji ráðherrarnir styrkja pólitíska stöðu þeirra sjálfra.

Þá telja margir þingmenn að það væri erfitt fyrir Samfylkinguna að slita samstarfinu nú þar sem hún stæði þá eftir sem eini flokkurinn sem vill vinna að því að semja við Evrópusambandið.

Formaður Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon, hefur hins vegar stigið samtaka Samfylkingunni í aðildarferlinu. Báðir flokkar tapa þannig á því að slíta samstarfinu á þessum tímapunkti. Búast má við að þeir skerpi línurnar á komandi vetri en eftir því sem fréttastofa kemst næst eru stjórnarslit ekki í kortunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×