Innlent

Stjórnmálafræðingur: Brosleg afstaða sjávarútvegsráðherra í selamáli

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Ísland verður þriðji aðili í máli Kanada gegn Evrópusambandinu vegna innflutningsbanns á selaafurðum, stjórnmálafræðingur segir tilburði sjávarútvegsráðherra í málinu skerpa á átökum innan ríkisstjórnarinnar.

Bannað hefur verið að flytja inn selaafurðir til Evrópusambandsríkjanna frá árinu 2010.

Kanadamenn kærðu bannið til Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar. Það er sagt grafa undan reglum um sjálfbæra verndun og nýtingu sjávarauðlinda. Íslensk stjórnvöld hafa nú tilkynnt að þau vilji taka þátt í kæru Kanadamanna og vera þar með þriðji aðili í málaferlunum ásamt Noregi, Kólumbíu, Japan, Mexíkó og Bandaríkjunum.

Í tilkynningu sem sjávarútvegsráðuneytið sendi frá sér í dag segir að ákvörðunin sé í fullu samræmi við fyrri yfirlýsingar Íslands á alþjóðavettvangi. Deilan snúist í reynd um rétt þjóða til að nýta náttúruauðlindir sínar með sjálfbærum hætti og eiga viðskipti með þær á alþjóðavettvangi.

„Í þessu máli er Ísland að stilla sér upp á bak við það prinsipp sem hér hefur verið haldið úti að það eigi að nýta dýraafurðir en það er hins vegar stefna ESB að hvalveiðar og selveiðar gangi gegn náttúruverndarákvæðum þess og ef að Ísland er aðili að ESB þá myndi þetta tvennt ekki samrýmast," segir Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur.

Með þessarri yfirlýsingu sé Ísland því að staðsetja sig fyrir komandi aðildarviðræður og áhugavert sé að sjávarútvegsráðherra hafi séð ástæðu til að senda sérstaka fréttatilkynningu um þetta mál.

„Þarna eru auðvitað sjávarútvegsráðherra, sem er andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu, að skerpa á átökunum innan ríkisstjórnarinnar með því að draga þetta málefni fram og stilla sér á einhvern hátt þá upp á móti samstarfsflokknum í þessu máli," segir Eiríkur.

Framkoma ráðherrans sé eftirtektarverð og Eiríkur segir sig ekki geta annað en brosað af henni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×