Innlent

Stórhveli lífga upp á tilveruna á Patreksfirði

Kristján Már Unnarsson skrifar

Trillukarlar á Patreksfirði hafa haft óvenjulegan félagsskap á veiðunum undanfarnar vikur, stórhveli sem veifa sporðunum rétt við smábátana. Friðþjófur Jóhannsson frá bænum Litlu Hlíð á Barðaströnd var að koma úr róðri á Dýra BA þegar við gripum hann tali við löndun á bryggjunni á Patreksfirði.

Aflinn reyndist 450 kíló af þorski, og fiskarnir ekkert sérstaklega stórir. Friðþjófur kennir köldum sjó og langvarandi norðanátt um trekt fiskerí. Og verðið sem fékkst á markaðnum er ekki til að hrópa húrra fyrir, 250 krónur fyrir kílóið, um 100 krónum lægra en það sem fékkst að meðaltali í fyrra.

En þá er kannski eins gott að að hafa risaskepnur fyrir augunum sem hafa verið að lífga upp á tilveru manna á Patreksfirði að undanförnu, eins og Friðþjófur lýsti í viðtali á Stöð 2, en myndskeiðið má sjá hér að ofan. Þar mátti einnig sjá ljósmyndir sem Páll Janus Traustason tók af hvölum á firðinum.

Íbúar á Patreksfirði hafa hvað eftir annað séð hvalina fyrir utan bæinn og hótelgestir á nýja hótelinu hafa getað fylgst með þeim úr hótelherbergjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×