Innlent

Stormur í dag

MYND/Anton Brink
Búist er við stormi, með vindhraða meiri en 20 metra á sekúndu, í flestum landshlutum í dag. Á höfuðborgarsvæðinu er búist 15 til 23 metrum á sekúndu og lítilsháttar él. Seint í dag fer að draga úr vindi og léttist til. Hæg breytileg átt í fyrramálið og bjartviðri en vestlæg átt síðdegis og þykknar aftur upp. Hiti verður um og undir frostmarki.

Klukkan sex í morgun var norðátt, 13 til 23 á landinu en hvassara sums staðar til fjalla. Skýjað var og þurrt um landið sunnanvert, en talsvert sandfok syðst. Rigning með austurströndinni, annars snjókoma um landið norðan- austanvert. Mest frost var 2 stig á Haugi í Miðfirði en mildast var á Fagushólmsmýri eða 7 stig.

Vegagerðin varar við óveðri við Akrafjall og eins Fróðárheiði þar sem einnig er hálka. Á sunnanverðu Snæfellsnesi er hálka og hálkublettur eru á Vatnaleið. Ófært er á Holtavörðuheiði. Hálkublettir eru undir Hafnarfjalli og í Borgarfirði er hálka og skafrenningur er á Bröttubrekku.

Á Vestfjörðum er ófært á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum, Klettshálsi og Hjallahálsi. Þá er stórhríð á Ennishálsi og þæfingsfærð og skafrenningur er í Ísafjarðardjúpi. Lokað er um Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðahættu.

Hið sama er upp á teningnum á Norðurlandi en þar eru vegir ýmist ófærir eða eða þungfærir. Vegurinn milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar er lokaður vegna snjóflóðahættu.

Áfram er ófært víðast hvar á Austurlandi. Oddsskarð er þó fært en þar er snjóþekja og snjókoma. Frá Fáskrúðsfirði og suður í Djúpavog eru hálkublettir en annars er greiðfært um suðaustanvert landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×