Fastir pennar

Stóru orðin

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Alþingi hefur samþykkt að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ríkisstjórnin hefur slíka aðildarumsókn á stefnuskrá sinni. Hún ber jafnframt ábyrgð á því að ljúka aðildarviðræðum með þeim hætti að sem beztur aðildarsamningur náist. Þannig mætti ætla að ráðherrarnir sem skipa ríkisstjórnina líti á málið. Það gera þeir þó ekki allir.

Á fundi samningahóps Íslands um landbúnaðarmál með samningamönnum ESB í Brussel fyrir skömmu lýsti Sigurgeir Þorgeirsson, formaður hópsins og ráðuneytisstjóri í landbúnaðarráðuneytinu, því yfir að Ísland féllist á sameiginlega landbúnaðarstefnu ESB sem grundvöll viðræðnanna. Slíkt liggur beint við; það var Ísland sem sótti um aðild að Evrópusambandinu en ekki öfugt. Ráðuneytisstjórinn starfar í umboði og á ábyrgð landbúnaðarráðherrans, Jóns Bjarnasonar, og ætla mætti að sú afstaða sem hann setti fram væri afstaða ráðherrans.

Það er hins vegar öðru nær. Eftir fundinn sagði Jón Bjarnason hér í blaðinu að íslenzk lög ættu ávallt að ráða tilhögun landbúnaðar hér á landi og lýsti þannig í raun ráðuneytisstjórann sinn ómerking.

Fréttablaðið sagði í síðustu viku frá nýju ákvæði í reglugerð ESB um kvótaúthlutun, sem kveður á um að einstök aðildarríki ákveði sjálf kvóta í litlum, staðbundnum stofnum, í stað þess að tekin sé sameiginleg ákvörðun í ráðherraráði ESB, sem hefur verið mörgum þyrnir í augum. Um þetta sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hér í blaðinu að reglugerðin væri "sterkt fordæmi" og í samræmi við nýja hugsun innan ESB um að umsjón með staðbundnum stofnum væri flutt sem næst upprunanum. Breytingin væri í anda þeirra sjónarmiða sem Ísland hefði haldið fram.

Eftir að utanríkisráðherrann lét þessi ummæli falla sá Jón Bjarnason ástæðu til að láta blaðafulltrúa sinn senda út yfirlýsingu um að breytingin gæti alls ekki orðið grundvöllur neinna viðræðna, né styddi hún við samningskröfur Íslands. Ráðherrann vill, rétt eins og í landbúnaðarmálunum, halda fram ýtrustu kröfum um algjöra undanþágu frá sameiginlegri stefnu ESB, í stað þess að reyna að finna sameiginlegan flöt sem geti orðið til þess að sjónarmið Íslands verði hluti af stefnu ESB. Það er þó sú leið sem umsóknarríki hafa oftast farið til að gæta sinna brýnustu hagsmuna við inngöngu í Evrópusambandið.

Þetta er í ákveðinni þversögn við það að nú vinna menn dag og nótt í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu við að breyta íslenzkri sjávarútvegsstefnu þannig að hún verði líkari sjávarútvegsstefnu ESB, með byggðakvótum og félagslegum styrkjum, eins og Pawel Bartoszek benti á í ágætum pistli hér í blaðinu í gær. En það er annar handleggur.

Þegar hugmyndir Jóns Bjarnasonar um að draga aðildarumsóknina til baka hljóta ekki hljómgrunn grípur hann til þess ráðs að reyna að spilla fyrir þeim viðræðum sem eru hafnar og veikja samningsstöðu Íslands. Væri ekki hreinlegra að Jón Bjarnason yfirgæfi einfaldlega þessa ríkisstjórn sem vill leyfa "erlendu stórveldi" að "taka hér stjórnartauma af réttkjörnum og lýðræðislegum stjórnvöldum landsins" - svo notuð séu hans eigin stóru orð?






×