Erlent

Stríðið gegn fíkniefnum virkar ekki - vilja lögleiða maríjúana

Richard Branson er á meðal þeirra sem starfa í nefndinni.
Richard Branson er á meðal þeirra sem starfa í nefndinni.
Baráttan gegn eiturlyfjum í heiminum hefur misheppnast að því er fram kemur í skýrslu alþjóðlegrar nefndar. Nefndin er skipuð heimsþekktum einstaklingum á borð við Kofi Annan fyrrverandi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, kaupsýslumanninum Richard Branson og Nóbelsverðlaunahafanum Mario Vargas Llosa. Þá sitja fyrrverandi forsetar Brasilíu, Kólombíu og Mexíkó í nefndinni.

Þeir segja að baráttan gegn eiturlyfjum og glæpahringjum hafi haft skelfilegar afleiðingar fyrir einstaklina og samfélög víða um heim. Aukin áhersla lögreglu og hers á að uppræta vandamálið með valdi hefur ekki gengið upp að því er höfundar segja, þvert á móti hafi markaðurinn fyrir efnin aðeins stækkað og skipulagðir glæpahópar eflast með hverju árinu sem líður.

Mexíkó er tekið sem dæmi en þar hafa rúmlega 40 þúsund manns verið myrtir í átökum sem tengjast eiturlyfjasölu frá því forseti landsins skar upp herör gegn vandamálinu fyrir fjórum árum.

Skýrsluhöfundar leggja til róttækar breytingar á því hvernig vandamálið skuli tæklað og stinga meðal annars upp á því að lögregla hætti að eltast við eiturlyfjaneytendur sem neyti fíkniefna án þess að gera öðrum mein. Þá eru ríkisstjórnir hvattar til að kanna möguleikana á því að lögleiða maríjúana og gera betur í því að útvega sprautusjúklingum hreinar sprautur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×