Skoðun

Stuðningsgrein: Við veljum Katrínu Júlíusdóttur

Þegar stofnun Samfylkingarinnar varð að veruleika árið 2000 rættist draumur okkar jafnaðarmanna. Fram á sjónarsviðið var kominn flokkur sem sameinaði ekki aðeins jafnaðarmenn heldur einnig hugsjónir okkar um jöfn tækifæri óháð kyni eða efnahag, réttlæti og frelsi. Undir þessum gildum fylktum við liði í breiðfylkingu. Innan Samfylkingarinnar á að því að vera svigrúm fyrir ólík sjónarmið og að tekist sé á um stefnuna og leiðir á málefnalegan hátt. Forystumenn hennar þurfa því að leiða alla jafnaðarmenn saman. Strax á upphafsárum flokksins steig fram á sjónarsviðið ung kona sem átti eftir að láta að sér kveða á næstu árum og síðar veljast til forystu í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Katrín Júlíusdóttir hefur vaxið með þeim verkefnum og því trausti sem flokkurinn hefur sýnt henni. Frá því að vera kjörin sem formaður Ungra jafnaðarmanna árið 2000 og sem kjörin þingmaður flokksins í Suðvesturkjördæmi frá árinu 2003. Við fögnum þeirri ákvörðun hennar um að óska eftir að leiða flokkinn í kjördæminu. Forystusveit Samfylkingarinnar á að ástunda fagleg stjórnmál, vera samstarfsfús og sáttamiðuð, það er styrkur Katrínar Júlíusdóttur.

Katrín er kraftmikill stjórnmálamaður og nær árangri. Sem iðnaðarráðherra var hún brautryðjandi í stefnumótun um orkumál, orkuskipti í samgöngum og erlendar fjárfestingar á Íslandi. Hún hratt úr vör verkefnununum Inspired by Iceland og Ísland allt árið og tryggði framgang Rammaáætlunar. Þá leysti hún farsællega úr margra ára deilu um lykilhagsmuni þjóðarinnar með breytingu á Vatnalögunum.

Nýverið var Katrín kölluð til í eitt mest krefjandi embætti ríkisstjórnarinnar sem er fjármála- og efnahagsráðuneyti. Sú skipan sýnir ótvírætt það traust sem forysta flokksins og flokksmenn bera til Katrínar.

Við, öll fv. bæjarfulltrúar í Hafnarfirði, sem verið höfum lengi í framvarðarsveit jafnaðarmanna, höfum stutt Katrínu sem fulltrúa okkar í Suðvesturkjördæmi og fögnum því að hún stigi nú skrefið til fulls og sækist eftir að leiða Samfylkinguna í kjördæminu. Með Katrínu í forystusæti er tryggt að Samfylking verður áfram breiðfylking sátta- og samvinnu, breiðfylking jafnaðarmanna.

Gunnar Svavarsson fv. alþingismaður og bæjarfulltrúi

Ellý Erlingsdóttir f.v. bæjarfulltrúi

Hafrún Dóra Júlíusdóttir fv. bæjarfulltrúi

Ingvar Viktorsson f.v. bæjarstjóri

Jóna Dóra Karlsdóttir fv. bæjarfulltrúi

Tryggvi Harðarson fv. bæjarfulltrúi og varaþingmaður




Skoðun

Sjá meira


×