Innlent

Stuðningur við að ljúka ESB-viðræðum eykst milli kannanna

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Í Reykjavík vilja 63 prósent klára aðildarviðræður við ESB og 53 prósent í nágrannasveitarfélögum borgarinnar. Annars staðar á landinu vilja 45 prósent klára viðræðurnar.
Í Reykjavík vilja 63 prósent klára aðildarviðræður við ESB og 53 prósent í nágrannasveitarfélögum borgarinnar. Annars staðar á landinu vilja 45 prósent klára viðræðurnar.
53 prósent vilja ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið (ESB) en 35,1 prósent vill slíta viðræðum samkvæmt nýrri könnun sem Gallup vann fyrir Já Ísland. 11,3 prósent sögðust hlutlausir.

Stuðningur við að ljúka viðræðum hefur því aukist á ný, en í könnun sem lögð var fyrir í júní vildu 49,6 prósent klára viðræðurnar, en 41,1 prósent slíta þeim.

Töluverður munur er á afstöðu fólks til viðræðnanna eftir kyni, búsetu, stjórnmálaskoðunum og menntunarstigi.

Karlar hallast fremur að því að klára viðræður, 57 prósent, á móti 50 prósentum kvenna. Kjósendur Framsóknarflokks vilja fæstir ljúka viðræðum, bara 27 prósent og 61 prósent þeirra vill slíta þeim. Hlutföllin eru svo 32 og 59 prósent hjá Sjálfstæðisflokki.

Þrír fjórðu kjósenda Vg vilja klára viðræðurnar og 21 prósent slíta þeim. Mestur er stuðningurinn við að klára hjá Samfylkingu og Bjartri framtíð. Í þeim flokkum vill 91 prósent klára viðræður, en 4 og 3 prósent slíta þeim.

Þá dregur hratt úr andstöðu við aðildarviðræðurnar eftir því sem menntun fólks eykst. Af þeim sem bara eru með grunnskólapróf vilja 40 prósent klára viðræðurnar en 44 prósent slíta þeim.

Sömuleiðis eykst andstaða við aðildarviðræðurnar eftir því sem fjær dregur höfuðborgarsvæðinu. Í Reykjavík vilja 63 prósent aðspurðra ljúka viðræðunum.

55 prósent fólk með framhaldsskólapróf vill ljúka viðræðum og 34 prósent slíta. Og þegar horft er til fólks með háskólapróf þá vilja 67 prósent ljúka viðræðum, en einungis 26 prósent slíta þeim. 

Könnun Gallup var unnin dagana 22-29. ágúst og náði til 1.450 manns á landinu öllu, 18 ára og eldri. Fjöldi svarenda var 801 og svarhlutfall 55,2 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×