Innlent

Styttist óðum í íslenskar rafbækur

BBI skrifar
Hjá Eymundsson er nú verið að leggja lokahönd á forritun svo hægt sé að gefa íslenskar bækur út á rafrænu formi. Kerfið ætti að verða tilbúið fyrir lok mánaðarins og þá fara íslenskir titlar dúkka upp á rafrænu formi.

„Við erum rétt að klára að leysa ákveðin tæknileg vandamál. Það ætti að takast á næstu dögum og þá getur þetta verið komið í loftið innan tveggja vikna," segir Ingþór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Eymundsson.

Það er meiriháttar mál að breyta prentaðri bók í rafrænt eintak. Ingþór tekur eitt dæmi af vandamáli sem skapast: Í prentuðum eintökum er orðum sem passa ekki í eina línu oft skipt upp með bandstriki. Þannig lendir orðið í tveimur línum. Þegar bókin er komin í rafrænt form riðlast öll uppröðun og blaðsíðutal. Þannig lenda orðin gjarna í einni línu í rafrænu útgáfunni. Bandstrikið heldur sér engu að síður. Því þarf að fara yfir alla bókina og taka út óþarfa bandstrik.

„Þetta er bara eitt dæmi," segir Ingþór. „Svo þetta getur orðið mjög kostnaðarsamt. Allt að 15-20 þúsund krónur fyrir hvern titil."

Ingþór útskýrir að prentunarkostnaður sé ekki nema lítið brot af kostnaði við útgáfu bóka. Því geta íslenskir lestrarunnendur ekki búist við umfangsmiklum verðlækkunum í kjölfar rafbókavæðingarinnar. „Það er samt allt undir útgefendunum komið. En ég býst ekki við því," segir hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×