Innlent

Styttri vinnuvika fjarlægur draumur íslensku ofurfjölskyldunnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er ýmislegt sem veldur streitu í daglegu lífi foreldra, eins og til dæmis eldamennska og barnauppeldi.
Það er ýmislegt sem veldur streitu í daglegu lífi foreldra, eins og til dæmis eldamennska og barnauppeldi. vísir/getty
Daglegt líf íslenskra foreldra virðist einkennast af streitu og álagi við að samræma vinnu og fjölskyldulíf ef marka má fyrstu niðurstöður úr rannsókn Andreu Hjálmsdóttur og Mörtu Einarsdóttur um það sem þær kalla „íslensku ofurfjölskylduna.“

Andrea er lektor við Háskólann á Akureyri og Marta sérfræðingur við rannsókna-og þróunarmiðstöð sama skóla. Þær hafa í tæpt ár rannsakað íslensku ofurfjölskylduna og kynntu niðurstöður sínar á Þjóðarspeglinum í Háskóla Íslands á föstudaginn.

Ekki jafnfalleg glansmynd undir yfirborðinu

Andrea og Marta tóku viðtöl við sex rýnihópa, þrjá karlahópa og þrjá kvennahópa, tveir hópar voru í Reykjavík og fjórir á Akureyri. Um gagnkynhneigð pör var að ræða sem áttu öll börn.

„Við vitum að við Íslendingar vinnum rosalega mikið og við eigum hlutfallslega mörg börn sem stunda gríðarlega miklar tómstundir. Það eru miklar kröfur gerðar til fjölskyldunnar og við vildum athuga hvort þetta gengi allt upp. Það virðist vera sem að það sé ekki alveg jafnfalleg glansmynd undir yfirborðinu og við sjáum ákveðin merki um að okkur sé fullmikið í fang fært,“ sagði Andrea.

Skoðað var hverjir væru streituvaldar í daglegu lífi fólks og hvað það væri sem auðveldaði þeim lífið. Skemmst er frá því að segja að alla dreymir um styttri vinnuviku en fram kemur í rannsókninni að fólk líti á það sem fjarlægan draum þar sem það þurfi að vinna mikið til að ná endum saman.

Það er ýmislegt sem þarf að gera frá degi til dags, eins og til dæmis að kaupa í matinn.vísir/ernir
Næstum 1000 tölvupóstar frá skólanum á einu ári

Á meðal þess sem veldur foreldrum streitu eru heimilisstörfin, mörg börn og börn ólíkum skólastigum og skutl í tómstundir. Þá getur skólaganga barnanna valdið fólki streitu en einn pabbinn hafði það á orði að á einu ári hefði hann fengið hátt í 1000 tölvupósta frá skólanum.

Foreldrunum í rýnihópunum varð einnig tíðrætt um áreiti frá heimilinu í vinnuna og öfugt og þá var einnig nokkuð um að foreldrar tækju vinnuna með sér heim þar sem þeir færu fyrr á daginn til að geta skutlað börnunum í tómstundir. Það sem þó helst auðveldaði vinnuna við að láta allt ganga upp var að konan var í hlutastarfi.

„Hjá einu parinu var þessu þó öfugt farið þar sem maðurinn var í hlutastarfi. Einn veturinn fór hann reyndar í fullt starf en konan hans lýsti þeim tíma sem „martröð dauðans“ vegna álagsins sem fylgdi. Þau ákváðu því að hann myndi aftur lækka við sig hlutfallið þar sem þau treystu sér ekki í að vera bæði í fullri vinnu,“ sagði Marta.

Myndi ekki taka eftir því ef að eyrað dytti af

Allajafna var verkaskiptingin á heimilinu nokkuð jöfn, sérstaklega þegar kom að uppeldi barna. Verkaskipting við heimilisstörf er „heitari pottur“, eins og Andrea orðaði það, en konurnar töluðu mikið um heimilisstörfin og streituna sem fylgdi þeim. Þá ræddu þeir einnig mikið um að þurfa að vera verkstjórar á heimilinu og passa að karlinn gerði það sem hann ætti að gera, til dæmis elda eða þrífa, en mennirnir töldu slíka verkstjórn óþarfa.

Margir ræddu um að álagið væri svona mikið á ákveðnu tímabili og svo myndu hlutirnir lagast þegar börnin yrðu eldri, en rannsóknin leiddi í ljós að fleiri og yngri börn valda meira álagi.

„Orðræðan í samfélaginu einkennist af „að þola og þrauka.“ Fólk hugsar með sér að ef að hinir geta þetta þá hlýt ég að geta þetta. Það má segja að þetta sé einhvers konar lært hjálparleysi þar sem við erum föst í samfélagi þar sem við þurfum að gera þetta. Ein konan lýsti álaginu sem svo að hún myndi ekki taka eftir því ef að eyrað dytti af manninum sínum því það væri svo mikið að gera.“


Tengdar fréttir

Þrjátíu prósenta launahækkun og styttri vinnuvika

Félagsmenn SFR stéttarfélags, Sjúkraliðafélags Íslands og Landssambands lögreglumanna munu á næstu þremur árum fá allt að þrjátíu og tveggja prósenta launahækkun. Þá munu félögin taka þátt í tilraunaverkefni sem miðar að því að stytta vinnuvikuna um fjórar klukkustundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×