Fótbolti

Suárez með bæði mörkin í sigri í Perú

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suárez fagnar í nótt.
Luis Suárez fagnar í nótt. Mynd/AFP
Luis Suárez skoraði bæði mörk Úrúgvæ þegar liðið sótti þrjú stig til Perú í undankeppni HM í fótbolta í nótt. Þetta var fyrsti alvöru leikur kappans í nokkurn tíma því hann er að taka út leikbann hjá Liverpool.

Suárez skoraði mörkin sín á 43. og 67. mínútu en fyrra markið kom úr víti. Perú missti mann af velli í uppbótartíma fyrri hálfleiks en náði engu að síður að minnka muninn með marki Jefferson Farfán á 84. mínútu.

Luis Suárez er nú markahæstur í Suður-Ameríku riðlinum en hann hefur skorað 10 mörk í 11 leikjum eða einu marki meira Gonzalo Higuaín og tveimur mörkum meira en Lionel Messi. Higuaín og Messi spila báðir með Argentínu en argentínska landsliðið var ekki að spila í nótt.

Luis Suárez náði ennfremur tveggja marka forskoti á Diego Forlán í baráttunni um toppsætið á listanum yfir markahæsta menn landsliðs Úrúgvæ frá upphafi. Suárez hefur nú skorað 38 mörk í 71 leik en Forlán er með 36 mörk í 104 leikjum. Forlán fór meiddur af velli strax á 25. mínútu í leiknum í Perú í nótt.

Kólumbíu náði Argentínu að stigum á toppi Suður-Ameríku riðilsins með 1-0 sigur á Ekvador en báðar þjóðir eru með 26 stig í 13 leikjum. Síle (24 stig í 14 leikjum) og Ekvadori (21 stig) sitja síðan í næstu tveimur sætum en fjögur efstu sætin gefa beint sæti á HM. Úrúgvæ er í 5. sætinu með 19 stig eða þremur stigum meira en Venesúela en fimmta sætið gefur sæti í umspili við lið frá Asíu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×