Viðskipti innlent

Subway hagnaðist um 124 milljónir

Skúli Gunnar Sigfússon stofnaði fyrsta Subway-staðinn á Íslandi 1994. Staðirnir eru nú orðnir 20 talsins. Fréttablaðið/Anton
Skúli Gunnar Sigfússon stofnaði fyrsta Subway-staðinn á Íslandi 1994. Staðirnir eru nú orðnir 20 talsins. Fréttablaðið/Anton
Stjarnan ehf., sem er með einkaleyfi á Íslandi fyrir veitingahúsakeðjunni Subway, hagnaðist um 124,3 milljónir króna í fyrra. Það er rúmum fimmtán milljónum króna meiri hagnaður en árið 2009 þegar félagið hagnaðist um 109 milljónir króna. Stjarnan er í 100% eigu félags Skúla Gunnars Sigfússonar athafnamanns. Stjarnan opnaði nýverið tuttugasta Subway-staðinn á Íslandi.

Alls nema eignir Stjörnunnar 436 milljónum króna og jukust þær um 152 milljónir króna á milli ára. Hækkunin er nánast einvörðungu vegna þess að krafa á tengd félög jókst um 146 milljónir króna frá árinu 2009. Tengdir aðilar eru Leiti eignarhaldsfélag, sem er að fullu í eigu Skúla Gunnars. Það félag hefur ekki skilað ársreikningi fyrir síðasta ár. Stjarnan skuldaði 128,4 milljónir króna um síðustu áramót. Þar af voru 44,9 milljónir króna skuldir við lánastofnanir.

Á meðal annarra eigna Skúla er 26,32% hlutur í Nautafélaginu ehf., sem á og rekur Hamborgarafabrikkuna. Aðrir eigendur þess félags eru Jóhannes Ásbjörnsson og Sigmar Vilhjálmsson, sem eiga 36,84% hlut hvor. Nautafélagið hagnaðist um tæpar 35 milljónir króna á árinu 2010. Á grundvelli þeirrar afkomu ákvað stjórn félagsins að greiða 30 milljónir króna út í arð til hluthafa á árinu 2011. - þsj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×