Innlent

Svaf fyrir framan Ráðhúsið í Þorlákshöfn - vildi spara pening

Lögreglan á Selfossi sinnti heldur sérkennilegu útkalli í nótt. Þeim barst tilkynning um mann með svefnpoka sem væri að leggja sig til við Ráðhúsið í Þorlákshöfn.

Þegar á vettvang var komið fann lögreglan manninn sem sagðist vera frá Búlgaríu og væri í atvinnuleit.

Hann hafði farið um suðvesturhorn landsins en ekki orðið ágengt með að fá vinnu. Maðurinn hafði næga fjármuni til að framfleyta sér og með vegabréf. Hins vegar var hann að drýgja peninginn með því að spara sér að kaupa gistingu á meðan hann væri ekki kominn með atvinnu.

Síðdegis á laugardag um klukkan sex var brotist inn í íbúðarhús við Sólvelli á Stokkseyri og þaðan stolið 32" Toshiba sjónvarpstæki. Íbúar hússins höfðu verið á ferðalagi og fengið mann til að fylgjast með húsinu. Sá tók eftir að útidyrahurð var opin og við nánari skoðun sást að rúða hafði verið brotin með steini. Ekki er vitað hver var þarna að verki og biður lögreglan á Selfossi þá sem hafa orðið varir við óviðkomandi á staðnum í umrætt sinn að hringja í síma 480 1010.

Svo var tilkynnt um skemmdarverk í sumarbústað í landi Hæðarenda í Grímsnesi. Allar rúður bústaðarins utan ein voru brotnar. Eigandi hafði ekki komið í húsið frá því 1. nóvember síðastliðinn. Engar vísbendingar eru um hverjir hafi brotið rúðurnar en ef einhver getur veitt upplýsingar eru þær vel þegnar í síma 480 1010.

Húsleit var gerð í íbúðarhúsi í Þorlákshöfn í síðustu viku. Lögreglu höfðu borist ábendingar um að þar væri einstaklingur sem varslaði fíkniefni sem hann útvegaði öðrum. Við leitina fannst lítilræði af kannabis og amfetamíni. Einstaklingurinn viðurkenndi brot sitt og mun mál hans verða sent til ákæruvalds sem tekur ákvörðun um framhald.

Einn ökumaður var kærður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og annar fyrir hraðakstur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×