Innlent

Svikahnappur kemur upp um 39 svindlara

Lögreglu ber skylda til að aðstoða Tryggingastofnun og Þjóðskrá í málum sem þessum, segir Stefán. 
fréttablaðið/gva
Lögreglu ber skylda til að aðstoða Tryggingastofnun og Þjóðskrá í málum sem þessum, segir Stefán. fréttablaðið/gva
Upp hefur komist um 39 svindlara á síðustu tveimur mánuðum fyrir tilstilli tilkynningahnapps um bótasvik á heimasíðu Tryggingastofnunar (TR). Hnappnum var komið fyrir á síðunni fyrir ári síðan en frá 1. júlí í ár hafa 63 ábendingar um bótasvik borist. Af þeim reyndust 39 mál réttmæt og voru send til frekari skoðunar eða aðgerða.

Ásta Arnardóttir, deildarstjóri kynningarmála hjá TR, segir flestar ábendingar varða sambúð fólks sem ekki er skráð. Ferli stofnunarinnar gangi þá svo fyrir sig að þegar rökstuddur grunur liggur fyrir um brot á lögheimilislögum er haft samband við þjóðskrá sem lætur kanna málið frekar og krefur einstaklinga skýringa.

Skúli Guðmundsson, skrifstofustjóri þjóðskrár, segir að ekki sé hægt að skylda fólk til að skrá sig í sambúð, þó svo tveir einstaklingar búi saman. En njóti einstaklingar bóta sem þeim ber ekki réttur til og hafi ekki veitt þjóðskrá fullnægjandi skýringar, er lögreglu falið að rannsaka málið.

Lögregla hefur þegar farið í heimsóknir til þess að staðreyna búsetu fólks eftir ábendingar sem bárust í gegnum hnappinn. Í flestum tilvikum hefur grunurinn verið á rökum reistur og lögheimili viðkomandi er þá leiðrétt. Bótagreiðslur eru þá einnig leiðréttar í kjölfarið.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir lögreglunni bera skylda til að aðstoða Þjóðskrá og TR þegar óskað er eftir því. Í tilvikum sem þessum mætir lögregla á staðinn þar sem fólkið býr og ræðir við það. Upplýsingum er svo komið til þjóðskrár. Hins vegar ef um grunsemdir um bótasvik er að ræða er málið rannsakað sem sakamál.

„Þetta eru tvö aðskilin atriði. Annars vegar aðstoð við Tryggingastofnun og þjóðskrá til að staðfesta hvort viðkomandi búi á tilteknum stað eða ekki. Það er ekki rannsakað sem sakamál,“ segir Stefán. „Hins vegar þegar um er að ræða grunsemdir um bótasvik, þá fer málið í hefðbundinn farveg sem rannsókn á sakamáli hjá lögreglu.“

Þeir aðilar sem hafa ranglega sagt til um búsetu sína hjá þjóðskrá eru ekki sektaðir, sé málið ekki rannsakað sem sakamál hjá lögreglu. - sv



Fleiri fréttir

Sjá meira


×