Þrír ráðherrar Samfylkingarinnar, með Össur Skarphéðinsson í fararbroddi, voru í lykilstöðum við að hrinda af stað olíuleit á Drekasvæðinu. Sömu einstaklingar sitja allir enn á þingi fyrir Samfylkinguna, sem samþykkti um helgina að stefna í þveröfuga átt. Forsaga málsins var rifjuð upp í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Þótt Alþingi hafi markað stefnuna með lögum um kolvetni árið 2001 var það iðnaðarráðherrann Össur sem hratt olíuleitinni af stað í Orkustofnun með fyrsta útboðinu í janúar 2009.
„Þetta er einn af sóknarfleygunum inn í framtíðina,“ sagði hann við það tækifæri og fundaði um sama leyti með íbúum á Vopnafirði og Þórshöfn um þjónustumiðstöð.
„Ég er kominn hingað til þess að segja heimamönnum það að ég sé bjartsýnn og að ég leggi kapp á að menn ráðist í þetta og ég muni styðja þessa viðleitni til að byggja þessa þjónustumiðstöð hér,“ sagði Össur á tröppum félagsheimilisins á Vopnafirði.
Þegar umhverfisráðherrann Kolbrún Halldórsdóttir vildi hætta við, og Steingrímur J. Sigfússon var í vandræðum með að útskýra hvort ákvörðun um að leyfa olíuleit væri jafnframt ákvörðun um að leyfa olíuvinnslu, var svar Össurar:
„Menn fara ekki í það að bjóða út leyfi, sem fyrirtæki á alþjóðavísu væntanlega taka upp og hyggjast eyða tugum, jafnvel hundruð milljarða í að leita að olíu þarna á mjög erfiðu svæði, til að segja síðan við þau: Nei, heyrðu. Þetta var allt saman grín. Við vorum bara svona að skoða þetta. Nei, að sjálfsögðu ekki.“
Katrín Júlíusdóttir var tekin við olíumálunum í iðnaðarráðuneytinu þegar fyrstu umsóknir voru opnaðar í maí 2009 og þá var ekkert hik:
„Við höldum áfram alveg ótrauð í þessum leiðangri og auðvitað munum við gæta ítrustu umhverfiskrafna,“ sagði Katrín.
Oddný Harðardóttir var þriðji iðnaðarráðherra Samfylkingarinnar sem fylgdi málinu eftir, sat meðal annars ráðstefnu olíumálaráðherra og olíuforstjóra um olíuleit á Norðurslóðum, og fagnaði svo umsóknum í útboði númer tvö í apríl 2012. Hún sagði mörg tækifæri fylgja olíurannsóknum og olíuvinnslu, bæði uppbygging og atvinna.
Steingrímur J. Sigfússon var iðnaðarráðherra þegar fyrstu sérleyfin voru afhent í janúar 2013. Hann varði olíuleitina á alþjóðavettvangi, sagði til dæmis erlendum fréttamönnum á Norðurslóðaráðstefnu í Tromsö í sama mánuði að það yrði stór ákvörðun ef Ísland eitt ríkja ætlaði ekki að leyfa olíuleit.
Össur sem utanríkisráðherra beitti áfram áhrifum sínum, skálaði við olíumálaráðherra, en kannski gætu vegið þyngst samskiptin við Kínverja. Sex vikum eftir fræga Kínaheimsókn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Össurar í apríl 2013, með undirritun fríverslunarsamnings, var tilkynnt að kínverskt ríkisolíufélag myndi leiða olíuleitina á Drekasvæðinu.