Innlent

Svona hljóma háhyrningar á síldveiðum

Gissur Sigurðsson skrifar
Mynd/Náttúrustofa Vesturlands
Óveður kom í morgun í veg fyrir að hægt yrði að hefja tilraunir með að senda út ógnvekjandi háhyrningahljóð um hljóðgjafa í Kolgrafafirði til að sjá hvort hægt sé að fæla síldina út úr firðinum með þeim.

Fyrirtækið Stjörnuoddi vinnur að frekari útsetningu á þessum hljóðum, og verður hún líka reynd um leið og veður leyfir.

Róbert Stefánsson hjá Náttúrustofu Vesturlands vinnur að þessari aðgerð, en í hverju er hún fólgin? „Það verður spilað háhyrningahljóð fyrir síldina og reynt að fylgjast með því hvernig hún bregst við því. Þetta eru hljóð sem þeir gefa frá sér þegar þeir eru á síldveiðum“, segir Róbert.

Með því að smella á útvarpsfréttina með þessari frétt má heyra hvernig háhyrningar á síldveiðum hljóma.

Búið er að koma fyrir nettengdri bauju í firðinum, sem gefur stöðugar upplýsingar um súrefnismagn í honum, til að auðvelda mönnum að sjá hvort hættuástand sé í uppsiglingu og svo verður síldarmagnið í firðinum metið við frysta tækifæri, sem líklega verður ekki fyrr en á fimmtudag.

Menn sem fengnir voru til að meta möguleika á að koma upp löndunaraðstöðu fyrir smábáta innan brúar, hafa komist að þeirri niðurstöðu að slíkt muni ekki svara kostnaði miðað við hvað hver bátur má veiða á dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×