Innlent

Talið að lík skipstjóra Hallgríms hafi fundist við Noregsstrendur

Lík sem fannst í sjónum fyrir utan Noregsstrendur á fimmtudaginn er talið vera af skipstjóra Hallgríms, sem fórst í sjóslysi í janúar síðastliðnum.

Á fimmtudaginn síðastliðinn barst lögreglunni í Troms í Noregi tilkynning frá um að maður hafi fundist látinn í sjónum fyrir utan eyjuna Kvaloya.

Strax vöknuðu grunsemdir um að um væri að ræða einn skipverjanna af togaranum Hallgrími SI-77, sem fórst undan ströndum Noregs 25. janúar síðastliðinn.

Þrír fórust með skipinu og einn komst lífs af. Maðurinn sem fannst látinn á fimmtudaginn var klæddur í flotgalla en hann var fluttur til Tromsö þar sem lík hans hefur verið rannsakað.

Allt bendir til þess að um sé að ræða skipstjóra Hallgríms, Magnús Þórarinn Daníelsson en hann er einn þriggja sem fórst. Enn hafa ekki komið niðurstöður úr DNA prófum sem staðfesta þessar upplýsingar en persónulegir munir sem fundust á líkinu gefa sterklega til kynna að um hann sé að ræða.

Sá sem komst lífs af ,Eiríkur Ingi Jóhannsson, lýsti því í Kastljósviðtali eftir slysið að hann og Magnús hafi einir verið í flotgalla þegar þeir fóru í sjóinn. Þeir hafi barist fyrir lífi sínu saman en allt í einu hafi verið eins og Magnús hefði gufað upp.

Fjölskyldu Magnúsar hefur verið gert viðvart og verður lík hann flutt til Íslands þar sem hann verður jarðaður, ef jákvæðar niðurstöður fást úr prófunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×