Viðskipti innlent

Tap Orkuveitunnar fimmfaldast á milli ára

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Orkuveita Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur. Mynd/ Vilhelm.
Tap Orkuveitu Reykjavíkur fimmfaldaðist í fyrra frá árinu 2011. Tapið í fyrra nam 2295 milljónum króna en tapið árið 2011 nam 556 milljónum. Þetta má sjá í ársreikningi Orkuveitunnar sem kom út í dag. Þrátt fyrir þetta jókst rekstrarhagnaður Orkuveitunnar um 2,3 milljarða króna og fór úr 12,4 milljörðum á árinu 2011 í 14,7 milljarða í fyrra. Ástæða tapsins er einkum óhagstæð þróun gengis og lækkun á álverði.

Í tilkynningu frá Kauphöllinni segir að frá vori 2011 hafi Orkuveitan verið rekin í samræmi við aðgerðaáætlun fyrirtækisins og eigenda, Planið. Markmið þess hafi verið að bæta sjóðstreymi Orkuveitunnar um 50 milljarða króna á árabilinu 2011 til og með 2016. Í lok árs 2012 hafi allir þættir þess verið á áætlun, sumir gott betur, nema sala eigna. Með aðgerðum stjórnar og eigenda síðustu vikur hafi sá þáttur aftur komist á sporið. Þannig hafi verið staðfest á stjórnarfundi Orkuveitunnar í dag að sala Perlunnar fyrir 950 milljónir króna muni ganga eftir og forstjóri fengið heimild stjórnar til að ganga frá samningi um sölu höfuðstöðvanna að Bæjarhálsi fyrir 5,1 milljarð króna. Áfram sé unnið að sölu fleiri eigna. Þrátt fyrir að eignasala hafi tafist sé árangur Plansins frá samþykkt þess til ársloka 2012 um 1,8 milljarða króna umfram áætlun.

Samþykkt að gera samninga um gjaldeyrislán

„Ytri þættir voru rekstrinum áfram óhagfelldir á árinu 2012. Álverð lækkaði og gengi íslensku krónunnar veiktist. Þetta hefur áhrif á reiknað verðmæti raforkusölusamninga Orkuveitunnar við stóriðju og skuldir í erlendum gjaldmiðlum hækka. Samanlögð áhrif þessa og fleiri reiknaðra fjárhagsstærða í rekstrareikningi Orkuveitunnar eru neikvæð sem nemur 13,4 milljörðum króna. Af þessum sökum er heildarniðurstaða ársreikningsins neikvæð sem nemur 2,3 milljörðum króna. Markvisst er unnið að því að draga úr áhættu í rekstrinum vegna þróunar álverðs, gengis og vaxta með samningum við íslenskar og erlendar fjármálastofnanir," segir í tilkynningu Orkuveitunnar.

Þá segir í tilkynningunni að stjórn Orkuveitunnar hafi samþykkt á fundi sínum í dag að gera samninga um gjaldeyrislán frá erlendum og innlendum bönkum og umfangsmikla áhættuvarnarsamninga gegn sveiflum í gengi gjaldmiðla og vöxtum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×