Lífið

Táraðist yfir afmælisgjöfinni: Bróðirinn kom óvænt heim frá Danmörku

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ívar réð ekki við sig þegar Davíð bróðir hans mætti óvænt í afmælisveisluna hans.
Ívar réð ekki við sig þegar Davíð bróðir hans mætti óvænt í afmælisveisluna hans.
„Ég vissi ekki neitt og eftir á þá fatta ég eiginlega ekki hvernig ég vissi ekkert,“ segir Ívar Daníels í samtali við Vísi. Ívar verður þrítugur á mánudaginn og í tilefni af því komu vinir hans og vandamenn honum rækilega á óvart.

Ívar skipaði annan helming dúettsins Ívar og Magnús sem átti góðu gengi að fagna í Ísland Got Talent á síðasta ári. Hinn helmingurinn, Magnús Hafdal, sá um skipulagningu óvæntrar afmælisveislu fyrir vin sinn ásamt kærustu Ívars, Freyju Mjöll.

„Svona eftir á þá sé ég fullt af hlutum þar sem ég hefði átt að sjá að eitthvað var í gangi. Kærastan mín sagði mér til að mynda nokkrum sinnum að hún væri að fara út að borða en þá var hún ekkert búin að hafa sig til. Þá var hún að fara að leggja á ráðin um þetta,“ segir Ívar.

Í gær var blásið til óvæntrar afmælisveislu þar sem vinir og fjölskylda komu saman. „Magnús vissi að mig langaði að halda upp á afmælið mitt en til að tryggja að ég myndi ekki gera það á undan þeim þá hafði hann bókað okkur á fullt af viðburðum og haldið mér uppteknum svo það tækist ekki.“

Bróður Ívars, Davíð, vantaði hins vegar í veisluna þar sem hann er búsettur í Danmörku. Í veislunni var spilað myndband þar sem frægir einstaklingar óskuðu afmælisbarninu til hamingju með daginn. Í lok þess var spilað myndbrot þar sem Davíð bróðir hans bölvar því að vera fastur úti í Danmörku en síðan tekur það óvænta stefnu.

„Mig grunaði aldrei að hann kæmi inn í salinn,“ segir Ívar. Þrátt fyrir að búa í sitthvoru landinu og hittast í mesta lagi tvisvar á ári þá eru þeir mjög nánir.

„Þetta var mikill feluleikur. Davíð lenti klukkan þrjú í gær og faldi sig heima hjá Ágústi bróður okkar. Í félagsheimilinu faldi hann sig inn í einhverju bakherbergi og kom inn á hárréttum tíma. Það vissi enginn af þessu nema Magnús, bræður mínir og kærasta mín held ég,“ segir Ívar.

Myndband af þessari stórskemmtilegu afmælisgjöf má sjá hér fyrir neðan en það var bróðir Magnúsar Hafdal, Eiríkur Þór Hafdal, sem sá um að taka það upp og vinna það. 

Davíð bróðir Ívars kemur í veisluna frá DK

Annað stórkostlegt móment þegar Davíð bróðir hans ívars kemur í veisluna beint frá DK auðvitað óvænt fyrir alla í veislunni, auk Ívars.. Davíð og Ívar eru mjög nánir en hittast ekki oft, þar sem að Davíð býr í DK.. Muna að skoða í HD

Posted by Eiríkur Þór Hafdal on Saturday, 9 April 2016

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×