Innlent

Telja nýjar EES-reglur ekki standast stjórnarskrána

Nýjar reglur Evrópusambandsins (ESB) sem Íslandi ber að taka upp vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) stangast á við íslensku stjórnarskrána, samkvæmt mati sérfræðinga í stjórnskipunarrétti.

Með reglunum setti ESB á fót stofnanir sem hafa eftirlit með fjármálamörkuðum Evrópuríkja. Stofnanirnar hafa meðal annars vald til að svipta banka starfsleyfi og taka fram fyrir hendur fjármálaeftirlita Evrópuríkja. Ekkert í stjórnarskránni heimilar svo víðtækt framsal á valdi ríkisins samkvæmt niðurstöðu lagaprófessoranna Bjargar Thorarensen og Stefáns Más Stefánssonar.

Álitsgerðin sýnir að Ísland hefur tvo kosti í stöðunni, segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. „Annars vegar að ráðast í að breyta stjórnarskránni með þeim hætti að heimilt sé að framselja vald til yfirþjóðlegra stofnana. Hins vegar að enda að lokum í því að EES-samningurinn verði óvirkur og við jafnvel kunnum að hrökklast út úr honum."

Össur segir seinni kostinn ekki koma til greina. „Ég tel að svar okkar eigi að vera að reyna að ná samstöðu um að ná fram breytingum á stjórnarskránni."

Össur segir að þær breytingar sem gerðar hafa verið á EES-samningnum frá því hann var samþykktur árið 1992 geti þegar hafa leitt til þess að samningurinn eins og hann er framkvæmdur sé ekki í samræmi við stjórnarskrána.

„Ég er þeirrar skoðunar að EES-samningurinn sé kominn út fyrir það sem stjórnarskráin heimilar," segir Össur. „Með þessu máli sem nú er komið upp er ljóst að við getum ekki lengur innleitt reglur sem okkur ber samkvæmt EES-samningnum án þess að brjóta stjórnarskrána. Þess vegna þarf að breyta henni, nema menn séu tilbúnir að fórna EES-samningnum, sem ég teldi mikið óheillaspor sem enginn vill stíga."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×