Viðskipti innlent

Telur ekki grundvöll fyrir málsókn gegn sér

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Halldór J. Kristjánsson telur ekki grundvöll fyrir málsókn gegn sér.
Halldór J. Kristjánsson telur ekki grundvöll fyrir málsókn gegn sér.
Halldór Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbanka Íslands, segir að Landsbankinn hafi keypt ábyrgðartryggingu í Bretlandi fyrir starfsfólk sitt. Slitastjórn bankans hafi tilkynnt hlutaðeigandi tryggingafélagi að hún telji að kröfurnar falli undir trygginguna. Þetta kemur fram í orðsendingu sem Friðjón Örn Friðjónsson, lögmaður Halldórs sendi fjölmiðlum.

Slitastjórn og skilanefnd Landsbankans hyggst stefna fyrrverandi stjórnendum Landsbankans og krefjast 37 milljarða af þeim Halldóri og Sigurjóni Árnasyni, fyrrverandi bankastjórum bankans. Ástæðan er sú að slitastjórnin telur að bankastjórarnir fyrrverandi hafi gerst sekir um vanrækslu. Lögmaður Halldórs segir að hann telji að ekki sé grundvöllur til kröfugerðar í þeirri mynd sem fram er komin. Hann hafi, ásamt lögmanni sínum, óskað eftir samstarfi við slitastjórn til að yfirfara nánar þau tvö mál sem slitastjórn hefur gert að álitaefni.

Lögmaður Halldórs segir að hann hafi hvorki átt hlut að né persónulega hagsmuni að þeim ákvörðunum sem slitastjórn og skilanefnd hafi til umfjöllunar. Hagsmunir hans hafi alfarið verið þeir sömu og bankans sjálfs og allar ákvarðanir havi verið teknar með hagsmuni bankans að leiðarljósi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×