Innlent

Telur upptöku evru enn álitlegan kost

Toomas Ilves og Ólafur Ragnar grímsson Forseti Eistlands ásamt forseta Íslands á Bessastöðum í gær.
Toomas Ilves og Ólafur Ragnar grímsson Forseti Eistlands ásamt forseta Íslands á Bessastöðum í gær. Mynd/Vilhelm
„Sé horft á vandamálin sem við höfum þurft að glíma við vegna skorts á trausti á gjaldmiðlinum okkar þá, þrátt fyrir erfiðleikana sem evrusvæðið gengur nú í gegnum, er mun betri ákvörðun að vera innan evrusvæðisins en utan þess séu kostir og gallar vegnir," sagði Toomas Hendrik Ilves, forseti Eistlands, á blaðamannafundi á Bessastöðum í gær en hann er í opinberri heimsókn á Íslandi.

„Ef við höfum lítið land með fjárfesta sem flýja með fjármagn sitt vegna vantrausts á gjaldmiðlinum og stöðugar fréttir um að gjaldmiðillinn muni veikjast, án nokkurrar sýnilegrar ástæðu, þá verður að skoða aðra möguleika," sagði Ilves ennfremur og bætti síðan við að ef litið sé bara á lægri viðskipta- og vaxtakostnað sem upptaka evru hefði í för með sér, sé vænst að landsframleiðsla Eistlands muni aukast um eitt prósent strax við upptöku.

Fjármálaráðherrar Evrópusambandsríkjanna samþykktu á fundi sínum á þriðjudaginn að Eistland taki upp evruna í byrjun næsta árs. Landið gekk í Evrópusambandið árið 2004 en upphaflega var stefnt að upptöku evru árið 2007. Það hefur dregist vegna mikillar verðbólgu í landinu en í kjölfar heimskreppunnar, sem hófst árið 2008, hefur verulega dregið úr verðbólgunni og er hún nú komin vel niður fyrir viðmiðunarmörk evrusvæðisins.

Ilves, eiginkona hans og fylgdarlið komu hingað til lands síðdegis á miðvikudag en þau hverfa af landi brott snemma á laugardaginn.

Ilves var kjörinn forseti Eistlands árið 2006 en var áður utanríkisráðherra landsins og seinna Evrópuþingmaður.

Ilves segir Eista tilbúna til að hjálpa Íslendingum á alla mögulega vegu í tengslum við umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×