Innlent

Þetta er hið nýja jólatré höfuðborgarbúa

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hið nýja tré er á besta aldri um 60 ára og  11,5 metrar á hæð.
Hið nýja tré er á besta aldri um 60 ára og 11,5 metrar á hæð. Reykjavíkurborg
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fór í morgun og felldi jólatré í Heiðmörk sem komið verður fyrir á Austurvelli. Hitt tréð sem flutt var til landsins frá Noregi var tekið niður á mánudaginn var vegna fárviðris sem gekk yfir landið.

Eftir nánari athugun á trénu sem staðið hefur á Austurvelli í tvær vikur kom í ljós að það var illa farið af völdum veðurs. Stormurinn og mikil snjókoma höfðu gert það að verkum að greinar sveigðust af snjófargi og höfðu sumar brotnað af trénu.

Ákveðið var að ná í nýtt tré í Heiðmörk og varð fallegt sitkagrenitré fyrir valinu. Dagur og Khamshajiny Gunaratnam eða Kamzy, varaborgarstjóri Oslóar, völdu einmitt þetta tré þegar þau fóru í heimsókn í Heiðmörk þann 29. nóvember sl. til þess að skoða jólatré sem kæmu til greina á Austurvelli á næsta ári.

Tréð verður flutt úr Heiðmörk í dag og verður unnið að því á morgun að koma því upp á Austurvelli og skreyta með ljóstum og jólaóróum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×