Skoðun

Þjóð, kirkja og traust

Nú liggur fyrir útkoma út þjóðarpúlsi Capacent Gallup, þar sem spurt var um traust almennings til þjóðkirkjunnar og biskups Íslands. Svarið liggur fyrir: Of fáir treysta. Við sem störfum í þjóðkirkjunni höfum fylgst með því hvernig traustið til hennar sem stofnunar hefur dalað í skoðanakönnunum, oft í öfugu hlutfalli við það sem við reynum í samskiptunum í söfnuðunum okkar.

Það má ekki gleymast í þessari umræðu að þjóðkirkjan er fyrst og fremst fólkið sem tekur þátt í starfi safnaðanna um allt land, en ekki stofnun og skipulag, biskupar og prestar. Þjóðkirkjan er hreyfing karla og kvenna sem leyfa boðskap Jesú frá Nasaret að móta líf sitt til góðs fyrir heiminn. Hreyfing sem starfar um allt land.

Stofnunin þjóðkirkjan þarf að vita hvað veldur því að traust til hennar og æðsta embættismanns hennar er jafnlítið og raun ber vitni. Er skýringa að leita í almennri traustskreppu í samfélaginu? Er fólk sátt við hvernig tekið var við skýrslu rannsóknarnefndar kirkjuþings? Hefur kirkjan tekið nægilegt frumkvæði í uppbyggingunni eftir Hrunið? Hefur kirkjan staðið sig í jafnréttis- og umhverfismálum? Hvers vegna er afstaða þjóðarinnar til stofnunarinnar önnur en til starfsins í sóknarkirkjunni og nærsamfélaginu?

Hugtakið „aggiornamento" hefur verið notað yfir það sem umbreytist úr gömlu í nýtt. Í samhengi þjóðkirkjunnar þýðir þetta að kirkjan uppfæri sig til dagsins í dag. Þannig getur boðskapur hennar um frelsi manneskjunnar og umhyggju Guðs hitt okkur í hjartastað og borið ávöxt.

Skoðanakannanir um traust til kirkjunnar segja okkur að slík uppfærsla sé nauðsynleg. Þótt okkur hugnist ekki niðurstöðurnar, leiðum við þær ekki hjá okkur. Skilaboðin eru skýr og kirkjan bregst við þeim.




Skoðun

Sjá meira


×