Innlent

Þóra íhugar að senda Svavar á sjóinn - Ari Trausti sáttur

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Þóra Arnórsdóttir.
Þóra Arnórsdóttir.
Þóra Arnórsdóttir segist eiga eftir að ákveða hvort hún heldur áfram í sjónvarpi eða leiti á ný mið. Hún vill ekki fara aftur í framboð. Ari Trausti útilokar hins vegar ekki að bjóða sig aftur fram eftir fjögur ár.

Þóra nú ertu búin að fá nokkrar klukkustundir til að melta niðurstöður kosninganna, hvernig lítur þú á þetta allt saman? „Ég lít á þetta sem afskaplega dýrmæta reynslu og ég er mjög stolt af því sem við fengum áorkað."

þú sagðir frekar afgerandi í gær að þú vildir ekki fara aftur í forsetaframboð, er einhversskonar annað framboð í sveitastjórn eða alþingi sem kemur til greina? „Nei."

Hún hefur hins vegar ekki ákveðið hvort hún fari aftur í sjónvarpið eða leiti á önnur mið.

„Við þurfum aðeins að setjast yfir það, ég er að leita að plássi fyrir Svavar [Halldórsson, eiginmaður Þóru] að komast á sjó, bara aðeins til að rétta af heimilisbókhaldið en síðan sjáum við til, hvort við höldum utan í doktorsnám, eða hvað, það er svo margt sem kemur til greina, okkur hefur aldrei leiðst í lífinu," segir Þóra.

Ari Trausti segir þau hjónin vera ánægð með kosningabaráttuna.

„Okkur tókst með litlum kostnaði og litlum mannskap að vera með mjög vandaða, heilsteypta og málefnalega kosningabaráttu, koma til skila skoðunum á forseta embætti sem ég held að margir séu sammála, eitthvað sem er gjörólíkt því sem að Ólafur Ragnar hefur verið með í sextán ár, og verður með næstu tvö eða fjögur ár eða hvað það nú er sem hann ætlar að sitja," segir Ari Trausti Guðmundsson.

Hann útilokar ekki að fara aftur fram eftir fjögur ár.

„Hafi ég farið fram núna með þessa sýn á forsetaembættið sem ég hef, sem ég veit að er hin rétta, þá væri það líka óábyrgt af mér að segja að það kæmi ekki til greina að ég gerði þetta aftur, hitt er svo annað mál að fjögur ár er langur tími og ómögulegt að segja ver staðan verður þá," segir Ari Trausti að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×