Innlent

Þráinn styður ekki fjárlög að óbreyttu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Þráinn Bertelsson, þingmaður Vinstri grænna.
Þráinn Bertelsson, þingmaður Vinstri grænna.
Þráinn Bertelsson, þingmaður Vinstri grænna, vill að fundin verði sanngjörn lausn á fjármögnun Kvikmyndaskóla Íslands og segist að óbreyttu ekki styðja fjárlög nema það verði gert. Hann segir æskilegt að fjármögnun skólans verði tryggð.

Tæknilega situr ríkisstjórnin með eins atkvæðis meirihluta eftir að nokkrir þingmenn Vinstri grænna sögðu sig úr þingflokknum fyrr á þessu ári. Því gæti stuðningur Þráins við fjárlögin og þar með ríkisstjórnina skipt miklu máli.

„Þetta var skilið eftir óleyst og í lausu lofti af menntamálaráðherra þegar hún fór í frí. En Svandís (Svavarsdóttir, starfandi menntamálaráðherra innsk.blm) hefur unnið mikið til að finna lausn á þessu. Og ég held að lausnin sé í sjónmáli. Hitt er annað mál ef að menn gefast upp á að finna lausn á þessu þá sé ég enga ástæðu til að styðja fjárlögin," segir Þráinn.

Þráinn segir að það þýði ekki að sjálfgefið sé að ekki sé þingstyrkur fyrir fjárlögum. „Það er enginn sem segir að þeir sem að fóru frá borði, að þeir munu ekki styðja fjárlög næsta árs. Það er ekki sjálfgefið," segir Þráinn.

„Ef maður stillir þessu ískalt upp í stjórn og stjórnarandstöðu þá situr stjórnin með eins atkvæðis meirihluta, eins og við vitum. En ég er ekki að rjúka upp út af þessu máli. Ég er búinn að sitja rólegur yfir því að menntamálaráðherra og stjórnin gangi á hlut kvikmyndagerðarinnar í landinu miklu meira en nokkurrar af hinum skapandi greinum. Einhvern tímann gerist það að mælirinn fullur og maður segir hingað og ekki lengra," segir Þráinn Bertelsson. thorbjorn@stod2.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×