Menning

Þrír leikstjórar skoða Húsið

stefán máni Þrír innlendir leikstjórar hafa sýnt nýjustu bók Stefáns Mána áhuga.fréttablaðið/valli
stefán máni Þrír innlendir leikstjórar hafa sýnt nýjustu bók Stefáns Mána áhuga.fréttablaðið/valli
Þrír þekktir innlendir leikstjórar eru að íhuga að kvikmynda elleftu skáldsögu Stefáns Mána, Húsið, sem er nýkomin út. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru þeir að lesa bókina um þessar mundir með kvikmyndaréttinn í huga.

Þessi áhugi kemur ekki á óvart miðað við viðbrögðin við kvikmyndinni Svartur á leik, sem var byggð á samnefndri bók Stefáns Mána. Um 62 þúsund manns sáu myndina í íslenskum kvikmyndahúsum og er hún orðin næsttekjuhæsta íslenska mynd sögunnar á eftir Mýrinni með um áttatíu milljónir í aðsóknartekjur. Leikstjóri var Óskar Axelsson og með aðalhlutverk fór Þorvaldur Davíð Kristjánsson.

Stefán Máni hefur selt kvikmyndaréttinn að tveimur öðrum bókum sínum. Saga Film keypti réttinn að Ódáðahrauni fyrir þremur árum. Sá réttur náði til átján mánaða með möguleika á framlengingu og enn hefur myndin ekki litið dagsins ljós. Áður hafði fyrirtækið Zik Zak tryggt sér réttinn að Skipinu. Sá réttur rann út og var ekki endurnýjaður og fékk Stefán Máni hann því aftur í hendurnar.

Söguþráður Hússins er á þann veg að drengur kemst lífs af úr bruna í Kollafirði á Þorláksmessu árið 1979 en foreldrar hans og tvö systkini farast. Seint í nóvember er Hörður Grímsson kallaður að húsi í Smáíbúðahverfinu í Reykjavík. Í kjallaranum liggur gamall maður í blóði sínu. Skömmu síðar flytur fjögurra manna fjölskylda inn í afskekkt hús í Kollafirði og draugar fortíðar vakna til lífsins.

-fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.