Innlent

Þrír og hálfur milljarður í geðlyf á hverju ári

Hrund Þórsdóttir skrifar
Ef litið er á lyfjaútgjöld Sjúkratrygginga Íslands eftir lyfjaflokkum síðustu þrjú ár, eins og gert er í meðfylgjandi myndskeiði, sést að útgjöld vegna tauga- og geðlyfja eru langmest, nær þrefalt meiri en í næstdýrasta flokknum. Af tæpum 28 milljörðum sem greiddir hafa verið vegna lyfjanotkunar alls, hafa tíu og hálfur farið í þennan eina flokk af fjórtán, eða 38%. Þetta þýðir að Sjúkratryggingar greiða þrjá og hálfan milljarð vegna þessara lyfja á hverju ári.

Tölur yfir neyslu gefa einnig sláandi mynd, en eins og sjá má á þessu línuriti hefur notkun tauga- og geðlyfja aukist stöðugt hérlendis frá árinu 1990 og nálgast aukningin þreföldun á þessu tímabili.

Kristbjörg Þórisdóttir, sálfræðingur, sem barist hefur fyrir breytingum á geðheilbrigðiskerfinu, segir helstu ástæðuna að hér sé hugræn atferlismeðferð, sem skilað hafi bestum árangri, ekki aðgengileg almenningi. „Þjónusta sálfræðinga á stofum er ekki niðurgreidd af ríkissjóði,“ segir hún.

En eru lyfin sem sagt niðurgreidd?

„Já, lyfin eru niðurgreidd af sjúkratryggingum sem og þjónusta sérfræðinga á stofum, það er geðlækna.“

Í nágrannalöndunum er meðferðin orðin hluti af heilbrigðis- og félagsþjónustukerfinu. Kristbjörg segir margt hægt að gera fyrir fólk áður en grípa þurfi til lyfja. „Í formi fræðslu og stuðnings, tölvumeðferða, hreyfiseðla og hópnámskeiða þar sem fólk kemur á hópnámskeið í hugrænni atferlismeðferð.“

Íslendingar eiga heimsmet í geðlyfjanotkun og er hún nær tvöfalt meiri en að meðaltali  í OECD ríkjum. Kristbjörg segir raunhæft að jafna það á næstu tíu árum. „Þannig ættum við bæði að geta sparað háar fjárhæðir sem væru annars glataðir skattar, bætur og ýmiss kostnaður í heilbrigðiskerfinu og bætt heilsu og líðan landsmanna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×