Innlent

Þrír prestar til viðbótar sakaðir um kynferðisbrot

Kirkjuhúsið
Fréttablaðið/GVA
Kirkjuhúsið Fréttablaðið/GVA
Þrjú ný mál hafa í síðasta mánuði komið inn á borð fag­ráðs þjóðkirkjunnar vegna ásakana um kynferðisbrot. Þrír einstaklingar hafa leitað til fag­ráðsins og eru ásakanirnar á hendur þremur prestum. Enginn prestanna hefur áður komið við sögu hjá fag­ráðinu.

Einn prestanna sem um ræðir er enn að störfum innan kirkjunnar. Einn er hættur störfum og sá þriðji er látinn. Málin eru öll það gömul að þau eru komin út fyrir mörk refsiréttar, en eitt þeirra átti sér stað þegar þolandi var barn að aldri. Sá prestur er hættur störfum. Hin tvö eru á bilinu sex til tíu ára og voru báðir þolendur fullorðnir að sögn Gunnars Rúnars Matthíassonar, formanns fagráðs Þjóðkirkjunnar.

Gunnar segir málin þrjú vera í skoðun og fagráðið sé nú að styðja við þolendurna að koma þeim í réttan farveg.

„Ég veit ekki hvað verður úr þessum málum," segir Gunnar. „Það fer allt eftir þeim sem til okkar leitar og í hvaða farveg viðkomandi vill að málið fari."

Ekkert hefur verið aðhafst varðandi þann prest sem ásakaður er og er enn að störfum. Gunnar segir að það sé ekki hlutverk fagráðsins að grípa þar til aðgerða. „Sum mál eru þannig vaxin að þau kalla á inngrip en önnur ekki," segir Gunnar. „Ég efast um það að þetta mál sem um ræðir sé þannig vaxið að það kalli á að víkja viðkomandi úr starfi."

Gunnar segir að ef mál fari í formlegan farveg hjá lögreglu eða úrskurðarnefnd sé það þeirra aðila að segja til um áframhaldandi aðgerðir. Ef brotaþoli kjósi að opinbera ekki málið sé það alfarið hans að ákveða.

Gunnar vildi ekki gefa upp hvar á landinu þeir prestar sem málin varða væru eða hefðu verið starfandi. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×