Innlent

Þrjár af sex andartegundum á Tjörninni að deyja út

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Fuglalíf á Tjörninni Það er ekki sjálfgefið að fuglalíf kryddi mannlífið í miðborg Reykjavíkur.
Fuglalíf á Tjörninni Það er ekki sjálfgefið að fuglalíf kryddi mannlífið í miðborg Reykjavíkur.
Endur eiga verulega erfitt uppdráttar á Reykjavíkurtjörn og ljóst að flestar andartegundir deyja út ef ekkert er að gert.

Þetta segir Ólafur Karl Nielsen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Hann hefur nýlokið talningu þar og þó að hún komi aðeins skár út en í fyrra er ekki mikið tilefni til kæti.

Sex andartegundir verpa á Tjörninni en þar af eru þrjár við það að deyja út; duggönd, gargönd og æður. Ástæðurnar eru margar, til dæmis afrán frá hrafni og köttum, mávar gleypa síðan unga, varpland skreppur saman í Vatnsmýrinni og svo er fæðuskortur og samkeppni við aðgangsharða mávana erfið.

Gleðitíðindin eru þó þau að urtönd hefur orpið á Tjörninni en það er í fyrsta sinn sem það gerist. Hún er þó árlegur gestur þar að vetrartíma.

Ólafur Karl segir þó að helstu gleðitíðindin séu þau að borgaryfirvöld hafi látið af afskiptaleysisstefnu sinni í þessum málum en hún myndi ganga af þessu fuglalífi dauðu. Þessi nýja stefna birtist til dæmis í því að þrjátíu æðarungum var sleppt í Vatnsmýrinni í sumar og er fæði komið til þeirra nú, þótt markmiðið sé að þeir lifi sem villtir fuglar í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×