Innlent

Þrjú börn ættleidd til einhleypra á árinu

ÞEB skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni.
Tvær íslenskar, einhleypar konur hafa ættleitt börn erlendis frá á þessu ári. Sú þriðja fær sitt barn í hendurnar innan skamms. Þetta eru fyrstu ættleiðingar einhleypra hingað til lands frá árinu 2007, en ættleiðingarnar stöðvuðust þá vegna breytinga á reglum í Kína.

„Ég fékk Árna í fangið 24. janúar og það var dásamleg stund. Hann var spurður hvort hann vissi hver þetta væri og hann sagði á tékknesku „þetta er mamma mín"." Þetta segir Ásta Bjarney Elíasdóttir, sem ættleiddi soninn Árna Zdenék frá Tékklandi í byrjun ársins. Ásta Bjarney varð fyrsta einhleypa manneskjan til að ættleiða barn erlendis frá í fimm ár. Önnur einhleyp kona hefur síðan ættleitt barn frá Tógó. Þriðja konan á von á sínu barni innan skamms.

Eftir að reglur breyttust í Kína í ársbyrjun 2007 var talið að Íslensk ættleiðing gæti ekki sent umsóknir frá einhleypum til nokkurs lands. Því ákvað félagið að setja umsóknir einhleypra á hliðarlista, og á þeim fjórum árum sem þeir voru í notkun söfnuðust um þrjátíu einhleypir einstaklingar á listann, sem vildu ættleiða barn en gátu ekki hafið ferlið. Eftir að málin voru skoðuð nánar var ákveðið að leggja hliðarlistann niður og hefja ættleiðingar einhleypra á nýjan leik. Nú taka öll löndin sem félagið starfar með við umsóknum frá einhleypum með mismunandi skilyrðum.

„Mér finnst þetta bara alveg rosalega ánægjulegt ferli allt saman. […] Hann var alltaf ofsalega ákveðinn í því að ég væri mamma hans og hann var greinilega búinn að bíða eftir mér."

Útlit er fyrir að átján börn verði ættleidd hingað til lands á þessu ári, einu færra en í fyrra. Á öllum hinum Norðurlöndunum hefur ættleiðingum fækkað mikið milli ára, til að mynda fækkaði þeim um rúm 60 prósent í Noregi. Ísland er eina ríkið á Norðurlöndunum þar sem ættleiðingar standa í stað, þótt þær séu talsvert færri en mest hefur verið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×