Innlent

Þrjú hundruð tillögur um nýtt nafn á Ísland

BBI skrifar
Tillögurnar hrannast inn.
Tillögurnar hrannast inn. Mynd/ vefur Íslandsstofu
Íslandsstofu er ekki í nöp við nafnið Ísland þó efnt hafi verið til samkeppni um annað nafn á landið. Ísland er í senn nafn sem fólki þykir vænt um og dýrmætt vörumerki. Nafnasamkeppninni er hins vegar beint að ferðamönnum og miðar að því að vekja umræðu um Ísland á erlendri grundu.

„Það stendur alls ekki til að breyta nafninu á landinu eða fara að kynna það undir nýju nafni," segir Sveinn Birkir Björnsson, verkefnisstjóri hjá Íslandsstofu.

„Við erum bara að leika okkur með hugmyndina „hvað ef ...". Við erum hér með land sem heitir Ísland. Nafnið er kannski ekkert rosalega lýsandi fyrir landið sjálft. Hvað ef þú fengir tækifæri til að nefna það upp á nýtt. Hvernig myndi fólk lýsa tilfinningum sínum til landsins í einu orði," segir Sveinn.

Samkeppni Íslandsstofu hófst fyrir helgi. Undirtektirnar hafa ekki látið á sér standa og bara yfir helgina hafa um þrjú hundruð tillögur skilað sér inn á vef Íslandsstofu. Þar er tillagan Niceland einna algengust.

Fleiri tillögur.Mynd/vefur Íslandsstofu
Sveinn útskýrir að uppsetningin á öllum hugmyndunum byggi á nafninu Ísland. Þannig verða hugmyndirnar t.d. orðaðar í þessum dúr: Iceland is my Niceland. „Þannig að nafnið Ísland verður alltaf í forgrunni," segir Sveinn. „Og þetta er fyrst og fremst landkynning fyrir Ísland."

Nokkrar bestu tillögurnar verða notaðar á plaköt í vetur meðan samkeppnin stendur yfir, fyrst og fremst til að kynna sjálfan leikinn. Þegar upp verður staðið mun ein tillagan verða valin sem sú besta. Hún verður þó ekki notuð framvegis í markaðsstarf fyrir landið. „Samkeppnin snýst um að hafa gaman og skapa umræðu en ekki finna nýtt nafn fyrir landið okkar," segir Sveinn.


Tengdar fréttir

Ísland þykir ekki nógu gott nafn

Íslandsstofa stendur nú fyrir samkeppni um nýtt og betra nafn fyrir Ísland. Forsvarsmenn markaðsherferðarinnar Inspired by Iceland áttuðu sig á mikilvægi þess að endurnefna landið þegar um 10 þúsund manns viðruðu þær skoðanir á samfélagsmiðlum í sumar að "Ísland" væri ekki nógu lýsandi nafn fyrir landið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×