Innlent

Þverpólitísk ábyrgð á óráðsíu OR

Allir helstu stjórnmálaflokkarnir á Íslandi báru ábyrgð á stjórnun Orkuveitunnar á því tímabili sem skuldir hennar ruku upp. Þeir komu líka allir að ákvörðunum um að greiða sér arð út úr fyrirtækinu. Úttektarnefnd telur arðgreiðslur fjármagnaðar með lántökum.

Skuldir Orkuveitu Reykjavíkur (OR) jukust úr 17,7 milljörðum króna í 224,4 milljarða króna frá ársbyrjun 2002 til ársloka 2010. Á sama tíma greiddu eigendur fyrirtækisins sér arð upp á 16,3 milljarða króna og ábyrgðargjald upp á rúmlega tvo milljarða króna og færðu hlut Landsvirkjunar til Reykjavíkurborgar sem seldi hlutinn síðar fyrir á fjórða tug milljarða króna.

Þetta kemur fram í skýrslu úttektarnefndar um starfsemi OR á ofangreindu tímabili. Nefndin telur að arðgreiðslurnar hafi verið fjármagnaðar með erlendri lántöku og að ábyrgð stjórnar og stjórnenda á ógöngum fyrirtækisins sé mikil.

Allir helstu flokkarnir stýrðu Reykjavík, og þar af leiðandi OR, á þessu tímabili. Því má segja að þverpólitísk ábyrgð sé á þeim fjárhagslegu ógöngum sem OR rataði í á fyrsta áratug þessarar aldar.

Alfreð Þorsteinsson var stjórnarformaður OR í umboði R-listans frá stofnun hennar í upphafi árs 1999 og þar til eftir kosningarnar 2006. Að R-listanum stóðu Samfylkingin, VG og Framsóknarflokkurinn.

Eftir kosningarnar 2006 var myndaður meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Við þau tímamót varð Guðlaugur Þór Þórðarson stjórnarformaður OR. Hann sat í þeim stóli þar til í júní 2007. Við tók Haukur Leósson sem var síðan látinn hætta eftir að REI-málið komst í hámæli í október sama ár. Skömmu seinna var myndaður nýr meirihluti Samfylkingar, VG og Framsóknarflokks í borginni og hann skipaði Bryndísi Hlöðversdóttur í starf stjórnarformanns OR.

Sú stjórn sat í 100 daga áður en nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og F-lista Ólafs F. Magnússonar tók við taumunum. Kjartan Magnússon tók við stjórnarformennsku í OR fram í ágúst þegar meirihlutinn sprakk aftur. Þá tóku Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur höndum saman og gerðu Guðlaug Þ. Sverrisson að stjórnarformanni. Hann sat fram yfir kosningarnar vorið 2010 þegar nýr meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar skipaði Harald Flosa Tryggvason stjórnarformann. Hann situr enn.

Guðmundur Þóroddsson var forstjóri OR frá því að fyrirtækið var sett á fót og fram á mitt ár 2008. Þá tók Hjörleifur Kvaran, sem hafði verið aðstoðarforstjóri, við keflinu. Hjörleifur hafði reyndar setið í forstjórastólnum tímabundið áður á meðan Guðmundur tók sér leyfi til að stýra Reykjavík Energy Invest (REI), útrásararmi OR, um stundarsakir. Hjörleifi var sagt upp störfum í fyrra og Bjarni Bjarnason ráðinn í hans stað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×