Skoðun

Til hamingju með nýja óvininn

Magnús Gottfreðsson skrifar
Lengi vel hafa Íslendingar átt hauka í horni sem gjarnan hafa verið nefndir Íslandsvinir. Sérstakir Íslandsóvinir eru þó mun áhugaverðara rannsóknarefni. Nægir þar að nefna Blefken, Kurt Wadmark hinn sænska og auðvitað Gordon Brown. Þeir blikna þó í samanburði við hinn nýja óvætt, því nú hafa Íslendingar og reyndar nánast gjörvallt mannkyn eignast óvin sem ber ábyrgð á flestu því volæði sem menn geta yfirhöfuð haft orð á, bara nefna það. Þar er átt við gersveppinn Candida sem orsakar ekki aðeins talvandamál hjá fórnarlömbum sínum, heldur einnig stöðugar efasemdir, köfnunartilfinningu, dökka bauga undir augum, mikla svitamyndun og sífelldar áhyggjur, svo aðeins fátt eitt sé nefnt. Um þetta má lesa á bók eftir Hallgrím Magnússon lækni. Bókin mun nú vera sú söluhæsta á landinu.

Í sögu læknisfræðinnar má finna mýmörg dæmi um sölumenn sem boðað hafa allsherjarlausnir á vandamálum fólks. Þær lausnir eiga það sammerkt að vera einfaldar, en leysa fá vandamál nema e.t.v. fjárhagsvanda sölumannanna sjálfra. Í starfi mínu sem smitsjúkdómalæknir hef ég um 15 ára skeið fengist við að rannsaka og meðhöndla alvarlegar sveppasýkingar. Fullyrðingar um þátt sveppasýkinga í tilurð hinna fjölbreytilegustu vandamála bera í besta falli vott um fjörugt ímyndunarafl, en í versta falli eru þær afvegaleiðandi og kostnaðarsamar fyrir lesandann. Allt er best í hófi og síst af öllu vil ég letja fólk til að huga að lífsstíl sínum og mataræði eins og gert er í bókinni, en ráðleggingar fagfólks sem kennir sig við læknisfræði verða að byggja á staðreyndum.

Á hinn bóginn er hugsanlegt að ég hafi rangt fyrir mér og munu þá 80-90% vandamála landsmanna jafnvel senn heyra fortíðinni til. Ef svo er sakna ég þess að í bókinni skuli ekki vera minnst á þátt Candida í fjármálakreppunni. Voru fjárglæframenn um víða veröld ef til vill handbendi gersveppanna þegar allt kemur til alls?



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×