Innlent

Tindur Eyjafjallajökuls snjóhvítur

Eins og sjá mátti á vefmyndavél Mílu þá er hátindurinn snjóhvítur.
Eins og sjá mátti á vefmyndavél Mílu þá er hátindurinn snjóhvítur. Mynd / mila.is

Hátindur Eyjafjallajökuls er á ný orðinn fannhvítur eftir að þar snjóaði í nótt. Fjallið hefur allt verið öskugrátt frá lokum eldgossins í vor en gosið í toppgíg jökulsins stóð frá 14. apríl til 7. júní.

Eftir hlýindi nánast í allt sumar kólnaði nokkuð á landinu í gær þegar vindur snerist til ákveðinnar norðanáttar og greinilegt að hitastig hefur farið niður fyrir frostmark á hæstum fjöllum sunnanlands í nótt.

Snjólínan á Eyjafjallajökli var þó tiltölulega hátt í morgun, eða í yfir 1.200 metra hæð.

Líklegt er að margir fagni því að sjá jökulinn skarta kórónu sinni á ný og rifja þá kannski einhverjir upp ljóð Jónasar Hallgrímssonar, Gunnarshólma, sem hefst á þessum línum:

"Skein yfir landi sól á sumarvegi/ og silfurbláan Eyjafjallatind/ gullrauðum loga glæsti seint á degi./ Við austur gnæfir sú hin mikla mynd/ hátt yfir sveit, og höfði björtu svalar/ í himinblámans fagurtæru lind."

Eldfjallið má enn sjá á vefmyndavélum Mílu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×