Grindhvalavaða kom á land við Rif á Snæfellsnedi seinnipartinn í gær. Reynt var að koma hvölunum út en það gekk illa þar sem veður var afar vont á svæðinu.
Um 50 til 70 hvalir komu inn í höfnina við Rif í gær og mun fleiri hvalir voru fyrir utan höfnina. Þröstur Albertsson, íbúi á Ólafsvík var á staðnum, bæði í gær og í morgun. Hann segir að nú séu um 10 hvalir í höfninni, allir dauðir.
„Það var alveg skelfilegt að sjá dýrin kveljast, nú eru nokkrir hvalir komnir að Bug rétt við Ólafsvík það segir sitt um hvað hvernig þetta hefur verið fyrir þá í nótt í þessu vonda veðri,“ segir Þröstur.
Heimamenn hófu strax að nýta hvalinn, að sögn Þrastar er búið að nýtast mikið af hvalinum enda mikið af dauðum dýrum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem að svona stór vaða kemur upp á land við Rif en árið 1982 komu 300 grindhvalir upp að landi þar.
Tíu hvalir dauðir í höfninni á Rifi
