Íslenski boltinn

Tók tíma að venjast veðrinu á Íslandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Patrick Pedersen skorar og skorar fyrir Val.
Patrick Pedersen skorar og skorar fyrir Val. Vísir
„Þetta var virkilega góður sigur og frammistaðan hjá liðinu frábær,“ segir Patrick Pedersen, framherji Vals, við Fréttablaðið um 3-0 sigurinn á KR. Pedersen var frábær í leiknum, skoraði tvö mörk og er leikmaður sjöundu umferðar hjá Fréttablaðinu.

„Þetta var algjör liðssigur. Við vorum virkilega skipulagðir og spiluðum góðan leik á móti góðu liði,“ segir Pedersen sem er markahæstur í deildinni með fimm mörk. Í heildina hefur hann skorað átta mörk í sumar.

„Ég er fullur sjálfstrausts þessa dagana. Það kemur þegar maður skorar. Ég er á skriði núna sem er það sem allir framherjar vilja og vonandi heldur þetta bara áfram.“

Valsliðið er búið að vinna þrjá leiki í röð í deild og bikar og er búið að vinna bæði FH og KR.

„Liðið er að koma til og við erum alltaf að spila betur og betur. Við erum búnir að standa okkur svakalega vel í síðustu þremur leikjum; skora níu mörk og ekki fá á okkur eitt,“ segir Pedersen.

Þessi öflugi framherji kom til Vals á síðustu leiktíð og hefur því verið á Íslandi í rúmt ár núna.

„Ég er að venjast lífinu hérna. Sérstaklega veðrinu,“ segir hann og hlær. „Aðalatriðið er að hér fæ ég að spila sem var ekki að gerast í Danmörku og því líður mér mjög vel,“ segir Patrick Pedersen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×