Innlent

Tollar og vörugjöld verði endurskoðuð

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um endurskoðun tolla- og vörugjaldakerfis.
Fréttablaðið/Vilhelm
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um endurskoðun tolla- og vörugjaldakerfis. Fréttablaðið/Vilhelm
Alþingi Sex þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að íslensk vörugjalda- og tollalöggjöf verði tekin til gagngerrar endurskoðunar. Mælst er til þess að skipuð verði fimm manna nefnd með fulltrúum Hagfræðistofnunar, hagsmunaaðila og fjármálaráðherra, með það að markmiði að afnema viðskiptahindranir.

Í greinargerð segir að viðmið gildandi laga sé úrelt þar sem neyslumynstur Íslendinga hafi breyst mikið á undanförnum árum. Til dæmis hafi neysla á alifuglakjöti og svínakjöti fjórfaldast frá lokum níunda áratugarins og neysla á osti tvöfaldast. „Hins vegar miðist innflutningskvóti við neyslu áranna 1986 til 1989.“ Þá séu tollabreytingar á landbúnaðarvörum háðar pólitísku mati ráðherra hverju sinni.

Í greinargerðinni segir jafnframt að kerfi vörugjalda og tolla sé „frumskógur“ sem mismuni vörutegundum og hafi þannig áhrif á val neytenda og hvetji til verslunarferða til útlanda.

Í niðurlagi segir: „Öflug utanríkisverslun er forsenda hagsældar á Íslandi og telja flutningsmenn því mikilvægt að haldið verði áfram á braut aukins viðskiptafrelsis.“- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×