Innlent

Tom Cruise kominn til landsins

Tom er mættur og gerir vel við sig á Hótel Hilton.
Tom er mættur og gerir vel við sig á Hótel Hilton.
Stórleikarinn Tom Cruise kom til landsins síðdegis í dag samkvæmt heimildum Vísis og dvelur nú á Hótel Hilton í Reykjavík.

DV.is greinir frá því í kvöld að leikarinn gisti í forsetasvítu hótelsins. Tom mun dvelja í höfuðborginni í nokkra daga en svo mun hann halda út á landsbyggðina. Hann mun dvelja í Hrafnabjörgum á Vaðlaheiði í sumar að því er Akureyri Vikublað greinir frá.

Þar er einnig fullyrt að Thomas Martin Seiz, svissneski auðkýfingurinn sem keypti Hrafnabjörg, sem áður var lúxusvilla Jóhannesar í Bónus, hafi leigt Hollywood leikaranum Tom Cruise hús sitt. Tom hyggst verja nokkrum vikum á Íslandi í sumar við tökur á kvikmyndinni Oblivion.

Þá segir að iðnaðarmenn hafi unnið hörðum höndum í húsinu og gert gagngerar breytingar svo leikarinn uni sér betur í Vaðlaheiðinni. Von er á þotu bráðlega með húsgögnum og búnaði sem Cruise hyggist nota á meðan á dvöl stendur.

Oblivion verður meðal annars tekin upp á Jökulheimaleið, sunnan við Drekavatn að því er segir á vefnum dfs.is. Þá segist DV hafa heimildir fyrir því að tökur á kvikmyndinni eigi að hefjast í Hrossaborgum í Mývatnssveit á mánudag.

Tom Cruise greindi sjálfur frá því í bandaríska tímaritinu Playboy fyrir skömmu að hann ætlaði að vera hér á landi á fimmtugsafmæli sínu 3. júlí vegna upptöku á kvikmyndinni Oblivion hér á landi.

Fréttavefurinn mbl.is greindi frá því í dag að hann og fjölskylda hans verði á Íslandi um helgina. Það hefur þó ekki fengist staðfest en eiginkona Toms er ekki síður fræg, en það er Hollywood-leikkonan Katie Holmes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×