Innlent

Toshiki Toma horfði í ranga átt í 15 ár

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Toshiki Toma horfði í átt að Vopnafirði en ekki í átt að Norðurpólnum.
Toshiki Toma horfði í átt að Vopnafirði en ekki í átt að Norðurpólnum.
Toshiki Toma, prestur innflytjenda, horfði í ranga átt í fimmtán ár. Hann hélt að gluggi á vinnuherbergi í íbúð sinni sneri í norður en hann sneri í raun í austur. Toshiki segist yfirleitt vera mjög ratvís og þess vegna kom þessi uppgötvun honum í opna skjöldu.

„Ég var með áttavita í símanum og var inni í herberginu. Það kom mér mjög á óvart þegar ég sá að ég hafði ekki verið að horfa í átt að Norðurpólnum heldur í átt að Vopnafirði,“ útskýrir hann hlæjandi og heldur áfram:

„Ég fór á Google Earth og fletti húsinu mínu upp. Þá var þetta staðfest; ég var búinn að horfa í ranga átt í fimmtán ár.“

Toshiki vakti athygli á þessu á Facebook-síðu sinni. Honum finnst málið fyndið en sendir um leið kveðju sína til Vopnfirðinga, sem hann hefur horft til í einn og hálfan áratug án þess að vita af því. Í athugasemdum segir einn Facebook-vinur hans sem er frá Vopnafirði að fallegra sé á Vopnafirði en á Norðurpólnum auk þess sem hann þakkar fyrir kveðjuna.

Toshiki svarar: „Já, víst er Vopnafjörður fallegri en Norðurpóllinn og hlýrri bæði í lofthita og mannhjarta!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×