Skoðun

Trú, boð og bönn

Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar hefur nú til umfjöllunar samskipti leik- og grunnskóla borgarinnar við kirkju og trúfélög. Meirihluti ráðsins vill samkvæmt fréttum að samskiptin taki mið af þeirri stefnu að gera skólaumhverfið hlutlaust þegar kemur að trúmálum.

Til að ná því fram leggur meirihluti Mannréttindaráðs til breytingar á þeim venjum sem komist hafa á í samskiptum trúfélaga og skóla. Taka á fyrir að börn fái leyfi á skólatíma til að fara í fermingarferðalög, kynning á trúarlegu starfi verði bönnuð innan skóla, sömuleiðis öll umfjöllun um trúarleg málefni, einnig allt starf á vegum trúfélaga í húsnæði skóla og frístundastarfs. Loks á að taka fyrir að leitað sé til presta ef aðstoð þarf við áfallahjálp.

Í þessari umræðu teljum við mikilvægt að hafa nokkur atriði í huga. Hlutleysi í trúmálum þýðir ekki algjöra fjarveru veruleika og menningar trúariðkunar eða lok samstarfs kirkju og skóla. Mannréttindastefna sem byggir á trúfrelsi og virðingu fyrir ólíkum trúarskoðunum fólks krefst þess ekki að opinbert rými og samfélagslegt starf sé gersneytt af trúarlegum minnum.

Við hvetjum flottu borgarfulltrúana okkar í Reykjavík til að hafa í heiðri trúfrelsi sem gengst við þeirri staðreynd að trú og trúariðkun er hluti af samfélaginu okkar. Við hvetjum þau til að tryggja áframhaldandi jafnrétti og umhyggju fyrir öllum skólabörnum, hvaðan sem þau koma og hvaða lífsskoðun þau og fjölskyldur þeirra aðhyllast.

Við hvetjum borgarfulltrúana líka til að taka ekki frelsið til að haga málum frá skólunum sjálfum og fagfólkinu sem vinnur við mennta- og frístundastarf borgarinnar. Við treystum skólastjórnendum á hverjum stað til að skipuleggja samskipti og samstarf við kirkju, trúfélög og lífsskoðanafélög, við tónskóla, skáta og íþróttafélög. Stöndum vörð um frelsi í hverfi. Við þurfum trú og traust, ekki boð og bönn.










Skoðun

Sjá meira


×