Skoðun

Trúboð úr skólum

Reynir Harðarson skrifar
Í skólum fer fram fræðsla um mismunandi lífsskoðanir og trúarbrögð en þar er ekki stunduð boðun trúar. Í engum tilfellum er skólastarfi og starfi trúar- og lífsskoðunarhópa blandað saman," segir í stefnumótun Menntasviðs Reykjavíkur frá árinu 2008. Þar segir jafnframt að börnum skuli ekki „mismunað vegna trúar eða lífsskoðunar þeirra eða foreldra þeirra. Forðast skal aðstæður þar sem börn eru tekin út úr hópnum eða skylduð til að taka þátt í atburðum sem ekki samræmast trúar- eða lífsskoðunum þeirra."

Þetta er greinilega flóknara en margir prestar geta skilið eða ósanngjarnt að þeirra mati. Þessi stefna miðast samt sem áður við landslög, ákvæði mannréttindasáttmála og dómafordæmi fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Þessi sjálfsögðu viðmið vildi Mannréttindaráð Reykjavíkur tryggja í framkvæmd en það vill Þjóðkirkjan greinilega koma í veg fyrir. Af hverju?

„Boðun er hið eiginlega eðli kirkjunnar. Boðun er ekki valkostur kirkjunnar. Boðun er grundvöllur veru hennar," segir kirkjan sjálf. Um það segir Karl Sigurbjörnsson biskup: „Kirkjan er send með boðskap. Það er hlutverk hennar og verkefni hennar öll eru með einum eða öðrum hætti liður í þeirri sendiför." Samt reynir fræðslufulltrúi Biskupsstofu ítrekað að halda því fram að engin boðun felist í aðkomu presta að skólum. En það verður ekki bæði haldið og sleppt.

Séra Örn Bárður Jónsson viðurkennir hins vegar hlutverk sitt sem trúboði en til að afsaka það vill hann klína trúboði á alla aðra líka. Í blaðagrein í Fréttablaðinu 29. október minnir hann á að auðvitað eigi að fræða börn um kristna trú og önnur trúarbrögð í skólum. En um það standa engar deilur. Sjálfsagt er að kennsla miðist meira við kristna trú en Shinto-trú o.s.frv. En Örn Bárður sér ekkert að því að Gídeon-menn mæti í tíma hjá 10 ára börnum, gefi þeim Nýja-testamentið og leiði þau í bæn. Markmið Gídeon-manna er að „ávinna menn og konur fyrir Drottinn Jesú Krist. Dreifing Heilagrar ritningar og einstakra hluta hennar er aðferð til að ná því marki". Þarna er því um að ræða blygðunarlaust trúboð, blöndun skólastarfs og trúarhóps.

Séranum finnst þessi staða bara allt í lagi af því að meirihluti barna kemur frá kristnum heimilum, óhreinu börnin má bara fjarlægja rétt á meðan. Svo segir presturinn: „Börnin þín þurfa ekki að verða fyrir neinni mismunun í skóla þótt skólasystkini þeirra fari í kirkjuheimsókn á aðventunni." „Það er ekki mismunun í mínum augum." Hvað væri þá mismunun í augum prestsins? Ef börn eru leidd til messu á vegum skólans er skólinn að fara út fyrir hlutverk sitt og grípa inn í trúarlegt uppeldi foreldranna. Það er hins vegar ekkert að því að skólabörn fari með kennara í kirkju til að skoða húsið og munina eins og þau fara á Þjóðminjasafnið eða Náttúrugripasafnið. Æskilegt væri að börn gætu kynnst sem flestum trúarbrögðum og samkunduhúsum sér til fróðleiks. En þar á ekki að fara fram iðkun trúar (eins og í messu) eða innræting (eins og í messu). Messa er annað en heimsókn. Þetta er ekki flókið.

Örn Bárður sakar Mannréttindaráð um að vilja miðstýra skólum í þessum málum en hann sér væntanlega ekkert athugavert við þá miðstýringu ríkisvaldsins í trúmálum að halda úti einu trúfélagi og kosta til þess fimm þúsund milljónum árlega. Og varla er neitt athugavert við að ríkið haldi skrá um trúfélagaaðild borgaranna, skrái börn þeirra meira að segja við fæðingu í trúfélag móður. Það hlýtur að teljast afar undarleg tilhögun og þótt það brjóti í bága við jafnréttislög að mati Jafnréttisstofu bólar ekkert á leiðréttingu.

Hvernig stendur á því að helsti Þrándur í Götu mannréttinda og jafnréttis hér á landi er ríkisrekið trúfélag? Eitt er að verja forréttindi sín en annað að úthrópa jafnréttissinna í sömu andrá sem siðleysingja og ógn við menningu og sögu þjóðarinnar. Við könnumst við það herbragð gegn réttindum samkynhneigðra en ég er hissa á kirkjunnar mönnum að leggja enn einu sinni til atlögu gegn sjálfsögðum mannréttindum einmitt þegar trúverðugleiki þeirra er eflaust í sögulegu lágmarki.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×